Erlent

Ætlar að stöðva átök hvað sem það kostar

Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, situr fund í ríkisstjórn landsins.
Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, situr fund í ríkisstjórn landsins. MYND/AP

Forsætisráðherra Íraks segist ætla að stöðva átökin í landinu, hvað sem það kostar. Átökin í Írak hafa aldrei verið verið meiri og hafa tugir fallið í árásum síðustu tvo sólarhringa.

Nuri al-Maliki, forsætisráðherra Íraks, segist staðráðinn í að stöðva átök í landinu. Forsætisráðherrann segist tilbúinn að beita hörku til að stöðva hópa glæpa- og hryðjuverkamanna sem hindra hvað eftir annað olíuútflutning og önnur viðskipti í borginni.

Átök í Írak hafa aldrei verið jafn blóðug og þau eru nú. Fimm lögreglumenn og 12 óbreyttir borgarar slösuðust er sprengja sprakk við varðstöð lögreglu í Mosul í norðurhluta Íraks í morgun. Þá hafa lík að minnsta kosti 40 manna, sem teknir höfðu verið af lífi, fundist víðs vegar í Írak síðasta sólarhringinn.

Mikið hefur verið um að mönnum hafi verið rænt og þeir teknir af lífi frá því moska sjíta var sprengd í loft upp í febrúar og er talið að um hefndarmorð sjíta og súnníta sé að ræða. Þá féllu 46 manns í þremur sprengjutilræðum í landinu í gær.

Í gærdag féllu 12 í sjálfsmorðssprengjuárás í bænum Hilla og níu í sprengjutilræði í bakaríi í austurhluta Bagdad. Og í gærkvöld féllu 25 manns og yfir sjötíu manns særðust þegar bílsprengja sprakk í grennd við grænmetismarkað í norðurhluta Bagdad. Alls særðust því á annað hundrað í tilræðunum þremur og hafa átökin ekki verið meiri síðan Bandaríkjamenn réðust inn í landið árið 2003.

Forsætisráðherra landsins sagðist í gær reiðubúinn að beita hörku til að stöðva hópa glæpa- og hryðjuverkamanna í borginni. Hvernig hann ætlar að fara að, á þó enn eftir að koma í ljós.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×