Innlent

Fjölmennustu mótmæli síðan 1973

Jökulsárgangan niður Laugaveg og fjöldafundurinn á Austurvelli eru meðal fjölmennustu mótmælafunda sem haldnir hafa verið á Íslandi. Lögreglan bókaði ekki tölu mótmælendanna en skipuleggjendur hafa giskað á tölur allt upp í 15 þúsund manns.

Eftir því sem NFS kemst næst hafa ekki verið fjölmennari mótmælafundir í landinu frá því um 30 þúsund manns söfnuðust saman á Lækjartorgi þann 24.maí 1973 til að mótmæla herskipaíhlutun Breta í íslenskri lögsögu, þegar landhelgisdeilan stóð sem hæst.

Eitt er víst að straumur fólks niður Laugaveginn í gær virtist óendanlegur, líkt og þungbeljandi jökulfljót. Ómar Ragnarsson líkti sjálfum sér og hinum mótmælendunum við litla vatnsdropa sem saman mynduðu stóra og óstöðvandi heild. Andri Snær Magnason sagði hins vegar að sér fyndist Ómar og hans þrekvirki líkt og gljúfur sem samtakamáttur hinna gæti runnið um.

Ómar blés á gagnrýnisraddir þeirra sem hafa viljað meina að það sé of seint í rassinn gripið að ætla að hætta við núna.

Þar sem engin bréfalúga er á Alþingishúsinu afhenti Ómar í lok dagskrárinnar húsverði í Alþingishúsinu bréf með tillögum sinni að þjóðarsátt þar sem tilgreint er hvernig hætta megi við Kárahnjúkavirkjun.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×