Innlent

Bílainnflutningur dregst hratt saman

Bílainnflutningur hefur dregist hratt saman síðustu vikurnar og voru innan við þúsund nýir fólksbílar skráðir hér á landi í síðasta mánuði. Það er langt innan við meðaltal síðustu missera.

Eftir nær samfelldan vöxt á bílainnflutningi frá árinu 2003 fór að hægja á vextinum upp úr áramótum og í apríl fór að draga úr honum. Það gerðist samfara gengislækkun krónunnar þannig að bílar hækkuðu í verði auk þess sem heldur dró úr bjartsýni landsmanna, samkvæmt væntingavísitölunni.

Þrátt fyrir það voru að meðaltali um það bil 1500 nýir fólksbílar fluttir inn í hverjum mánuði þar til talan féll niður í 965 í síðasta mánuði. Reyndar hefur líka dregið úr einkaneyslu á öðrum sviðum en sérfræðingar KB banka benda einnig á að svokölluð mettunaráhrif séu einnig að gera vart við sig.

Bílaeign Íslendinga sé orðin hlutfallslega mjög há í samanburði við aðrar þjóðir. Þannig sé rúmlega einn bíll á hvern Reykvíking á bílprófsaldri, sem talinn er 17 til 85 ára. Minni spurn eftir nýjum bílum megi ef til vill rekja til þess.

Þrátt fyir óvenjulítinn innflutning í síðasta mánuði er hann ekki kominn niður í það lágmark sem hann komst í einn mánuð í efnahagslægðinni árið 2001.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×