Innlent

Vill íhuga að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael

Íslensk stjórnvöld fordæma árás Ísraelsmanna á óbreytta borgara á Gasa og ætla að setja fram formleg mótmæli við sendiherra Ísraels þegar hann kemur hingað í næstu viku. Steingrímur J. Sigfússon, fomaður Vinstri grænna, vill ganga enn lengra og jafnvel slíta stjórnmálasambandi við Ísrael.

Magnús Þór Hafsteinsson, þingmaður Frjálslyndaflokksins, fordæmdi framferði Ísraelshers á Gasa í upphafi þingfundar á Alþingi í dag. Öllum þingmönnum sem tóku þátt í umræðunni´ofbýður framferði Ísraelsmanna, en sendiherra þeirra kemur hingað til lands á þriðjudag. Forystumenn stjórnarandstöðunnar ætla ýmist að hundsa fund með sendiherranum eða nota tækifærið til að mótmæla.

Steingrímur J Sigfússon, formaður Vinstri grænna, vill að rætt verði í utanríkismálanefnd Alþingis, hvort ekki eigi að slíta stjórnmálasambandi við Ísrael. Hann vill að málið verði tekið upp við Norðurlandaþjóðirnar til að samræma hugsanlegar aðgerðir. Steingrímur viðurkennir að með því að slíta stjórnmálasambandinu, sé klipt á samtal ríkjanna, en það sé spurning hvort ekki sé komið nóg. Ísraelear hundsi flestar alþjóðasamþykktir og fólki sé einfaldlega orðið nóg boðið.

Jón Sigurðsson, starfandi utanríkisráðherra, benti á að forsætisráðherra Ísraels hefði harmað þessa atburði og krafist opinberrar rannsóknar á þeim og utanríkisráðherra Ísraels hefði beðist afsökunar. Hann sagði íslensk stjórnvöld fordæma árásirnar í gær, sem hefðu að mestu bitnað á konum og börnum.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×