Innlent

Framlög fyrirtækja og einstaklinga verði ekki hærri en 300 þúsund

MYND/Baldur

Styrkir einstaklinga og fyrirtækja til stjórnmálaflokka og frambjóðenda í prófkjörum mega aldrei verða hærri en þrjú hundruð þúsund krónur samkvæmt tillögum nefndar um lagalega umgjörð stjórnmálastarfsemi sem kynntar voru í Stjórnarráðinu í dag.

Geir H. Haarde forsætisráðherra, Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, og Sigurður Eyþórsson, framkvæmdastjóri Framsóknarflokksins kynntu tillögurnar en Kjartan og Sigurður voru meðal fulltrúa sinna flokka í nefndinni, en í henni áttu fulltrúar allra stjórnmálaflokka á Alþingi sæti.

Samkvæmt tillögunum verða flokkarnir að gefa upp þá lögaðila sem styrkja þá og getur fyrirtækjasamstæða aðeins gefið 300 þúsund krónur en einstök dótturfyrirtæki ekki. Ekki þarf hins vegar að geta þess í ársreikningum flokkanna hvaða einstaklingar styrkja þá.

Frambjóðendur í prófkjörum flokkanna mega samkvæmt tillögunum aðeins verja einni milljón króna í framboðið auk álags sem miðast við fjölda íbúa í kjördæminu. Þannig getur frambjóðandi í prófkjöri í Reykjavíkurkjördæmunum tveimur hæst varið 7,5 milljónum til framboðsins.

Sömu reglur gilda um forsetakosningar og þá er í fyrsta sinn gert ráð fyrir að frambjóðendur til forseta lýðveldisins fái styrki frá ríkinu fái þeir tíu prósenta fylgi eða meira í forsetakosningum.

Enn fremur er sveitarfélögum þar sem fleiri en 500 manns búa skylt að styrkja framboð en þau ákveða sjálf upphæðina.

Stjórnmálaflokkunum verður samkvæmt tillögunum skylt að skila endurkoðuðum ársreikningum til Ríkisendurskoðunar en brot á þeim reglum getur varðað sektum eða allt að sex ára fangelsi.

Samstaða er meðal stjórnmálaflokkanna um tillögunar og er reiknað með því að formenn flokkanna leggi fram þingmannafrumvarp byggt á tillögunum á yfirstandandi þingi og að það verði samþykkt í vetur þannig að reglurnar gildi í þingkosningunum næsta vor.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×