Innlent

Framsóknarráðherra lét hlera síma sjálfstæðismanna

Sjálfstæðismenn töldu að símar forystumanna Sjálfstæðisflokksins, Morgunblaðsins og Vísis væru hleraðir á fjórða áratug síðustu aldar, í tíð vinstristjórnar sem þá var við völd. Maðurinn sem sagður er hafa flett ofan af þessum meintu hlerunum var Bjarni Benediktsson, sem seinna átti eftir að fyrirskipa hleranir á símum vinstrimanna þegar hann varð dómsmálaráðherra.

Ólafur Hannibalsson hefur nýlega fengið í hendur gögn frá Þjóðskjalasafninu sem staðfesta að símar föður hans, Hannibals Valdimarssonar, voru hleraðir árið 1961 þegar hann var alþingismaður og forseti Alþýðusambands Íslands. Hlerunin fór fram að beiðni dómsmálaráðuneytisins í ráðherratíð Bjarna Beneditkssonar sem síðar varð formaður Sjálfstæðisflokksins.

Fleiri símar voru hleraðir að ósk Bjarna, þ.á m. símar Kjartans Ólafssonar þegar hann var framkvæmdastjóri Sósíalistaflokksins og framkvæmdastjóri Samtaka hernámsandstæðinga.

En sjálfstæðismenn óttuðust líka að símar þeirra væru hleraðir. Á fjórða áratugnum, kreppuárunum, var við völd ríkisstjórn sem kölluð var stjórn hinna vinnandi stétta, með Hermann Jónasson, Framsóknarflokki, í stól dómsmálaráðherra. Ólafur Hannibalsson segir að þá hafi símhleranir verið fyrirskipaðar undir því yfirskyni að hlera leigubílstjóra sem stunduðu leynivínsölu.

„En þeir töldu sig hafa gögn fyrir því að símar forvígismanna Sjálfstæðisflokksins og blaða Sjálfstæðisflokksins hefðu verið hleraðir og brugðust náttúrlega ókvæða við, eins og ég geri núna," segir Ólafur.

Hann segir að það hafi verið Bjarni Benediktsson, þá ungur lagaprófessor, sem gengið hafi fram fyrir skjöldu og „flett ofan af þessari ósvinnu".



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×