Innlent

Ríkið leggi sitt af mörkum vegna almenningssamgangna

MYND/GVA

Ársfundur Strætós bs. og Samtök sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu skora á ríkisvaldið að leggja sitt af mörkum til að bæta rekstrarskilyrði almenningssamgangna og minnka þær álögur sem lagðar eru á starfsemina.

Ályktun þessa efnis var samþykkti á aðalfundi Strætós í dag. Í ályktuninni fara Strætó og sveitarfélögin fram á að þau fái 2/3 hluta virðisaukaskatts vegna kaupa á nýjum vögnum endurgreiddan á sama hátt og kaupendur hópferðabifreiða og að leiðréttingin verði afturvirk frá því ákvæðið tók gildi 2001.

Þá vilja þau einnig að kostnaðarauki sem varð vegna brottfalls þungaskatts og upptöku olíugjalds verði leiðréttur, ráðist verði í úrbætur á þjóðvegum á höfuðborgarsvæðinu með það að markmiði að efla og auka samræmdan forgang strætisvagna í umferð og að ríkisvaldið styðji almenningssamgöngur sem nemur álögðum virðisaukaskatti á starfsemi málaflokksins.

Enn fremur segir í ályktuninni að það sé ekki lögbundið hlutverk sveitarfélaga að reka almenningssamgöngur en að þau axli eigi að síður samfélagslega ábyrgð sína með því að starfækja þessa þjónustu sem sé sjálfsögð og nauðsynleg í borgarsamfélagi á borð við höfuðborgarsvæðið.

Til þess að það sé hægt þurfi ríkið einnig að taka þátt í hinni samfélagslegu ábyrgð og skapa málaflokknum þau rekstrarskilyrði að almenningssamgöngur geti verið raunhæfur valkostur í vali á samgöngumáta fyrir íbúa og gesti höfuðborgarsvæðisins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×