Innlent

Fjárlög ríkisins fyrir árið 2007 samþykkt á Alþingi

Fjárlög ríkisins fyrir næsta ár voru samþykkt frá Alþingi fyrir hálfri klukkustund með 34 atkvæðum stjórnarmeirihlutans en 26 þingmenn stjórnarandstöðu sátu hjá. Fjármálaráðherra sagði fjárlögin markast af hagvaxtarskeiði en stjórnarandstaðan kallaði þau kosningafjárlög.

Áður en kom að lokaatkvæðagreiðslunni tók fjármálaráðherra til máls og sagði þrjú stór meginmál felast í frumvarpinu. Það væri síðasta áfanginn í mesta skattalækkunarferli síðari tíma, það væri stærsta verkefni síðari ára til að bæta kjör aldraðra og það væri stærsta átak nokkru sinni til lækkunar matvælaverðs með lækkun virðisaukaskatts.

„Útgjaldafjárlög eru þetta því að útgjöld aukast um 16,7 prósent á milli fjárlaga. Þetta eru kosningafjárlög því að ríkisstjórnin rær nú lífróður. Erindi hennar er lokið, þreki hennar er lokið og það mun að sjálfsögðu verða skipt um ríkisstjórn hér í kosningum í vor," sagði Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, formaður Samfylkingarinnar, við lokaumræðuna.

„Þrátt fyrir að þetta séu útgjaldafjárlög þá eru vanefndir hér á þremur sviðum, gagnvart öryrkjum, gagnvart öldruðum og gagnvart verkalýðshreyfingunni. Það hljótum við auðvitað að fordæma," sagði hún enn fremur.

„Upp úr stendur þó hið alvarlega ójafnvægi í efnahagsmálum landsins. Gríðarlegur viðskiptahalli, svimandi háir vextir og verðbólga langt yfir viðmiðunarmörkum. Gagnvart þessum alvarlegu málum er ríkisstjórnin ekki að gera nokkurn skapaðan hlut. Hún hefur gefist upp og flýtur sofandi að feigðarósi með sín mál," sagði Steingrímur J. Sigfússon við sömu umræður.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×