Handbolti

Heimir Örn á heimleið

Heimir er á heimleið
Heimir er á heimleið Mynd/Birkir Baldvinsson

Samkvæmt heimildum íþróttadeildar Stöðvar 2 verða Heimir Örn Árnason og Ólafur Björn Lárusson næstu þjálfarar handboltaliðs Fylkis. Sigurður Sveinsson lét af störfum sem þjálfari liðsins í vikunni eftir að liðið hafði tapað 5 leikjum í röð.

Heimir Örn lék með Fylki þangað til í sumar þegar hann gekk í raðir Bjerringbro Silkeborg í Danmörku. Heimir fékk fá tækifæri með liðinu og er því á heimleið. Sigurður Jensson, formaður handknattleiksdeildar Fylkis, vildi ekki staðfesta þetta og sagði að þjálfararáðningin væri ekki fyrirhuguð fyrr en eftir leik liðsins við ÍR um helgina.

Fylkir er í næstneðsta sæti DHL-deildarinnar, stigi á undan ÍR sem er í neðsta sæti. Fylkir byrjaði mjög vel í deildinni í haust og vann tvo af fyrstu þremur leikjum sínum en síðan hefur hallað verulega undan fæti hjá liðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×