Innlent

Starfshópur fer yfir ólögmæta búsetu í atvinnuhúsnæði

MYND/Vilhlem

Magnús Stefánsson félagsmálaráðherra hefur skipað starfshóp til að gera tillögur um leiðir til að sporna við ólögmætri búsetu í atvinnuhúsnæði. Umræður um málið kviknuðu á Alþingi í kjölfar úttektar umsjónarmanna fréttaþáttarins Íslands í dag á Stöð 2 en hún leiddi í ljós að víða er pottur brotinn í þessum efnum.

Hlutverk starfshópsins er að safna upplýsingum um umfang ólögmætrar búsetu í atvinnuhúsnæði, kanna hvort ákvæði laga veiti stjórnvöldum nægilegar heimildir til að hafa eftirlit með slíkri búsetu og meta, í samráði við hlutaðeigandi stjórnvöld, hvort úrræði þeirra séu nægileg til að bregðast við þegar þess er þörf. Sérstök áhersla skal lögð á að afla upplýsinga um hvort algengt sé að fólk búi við ófullnægjandi eða hættulegar húsnæðisaðstæður og gera tillögur til úrbóta.

Starfshópurinn á að skila tillögum um nauðsynlegar aðgerðir og hugsanlegar lagabreytingar fyrir lok janúar. Í starfshópnum eiga sæti Ellý K. Guðmundsdóttir, sviðsstjóri umhverfissviðs Reykjavíkurborgar, Lúðvík Geirsson, bæjarstjóri í Hafnarfirði, Björn Karlsson brunamálastjóri og Gissur Pétursson, forstjóri Vinnumálastofnunar, sem verður formaður starfshópsins.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×