Viðskipti innlent

Hlutafé Exista fært í evrur

Þeim fyrirtækjum fjölgar nú hratt sem tilkynna að þau hyggist skrá hlutafé sitt í evrum í stað íslenskra króna. Actavis reið á vaðið með að bera þá ósk undir hluthafa sína í febrúar. Síðan hafa Marel og Straumur-Burðarás bæst í hópinn og víst að ekki sér fyrir endann á þeirri þróun.

Á aðalfundi fjármálaþjónustufyrirtækisins Existu í gær var stjórn félagsins veitt heimild til að gefa út hlutafé í evrum í stað íslenskra króna telji stjórnin slíkt fýsilegt. Jafnframt var ákveðið að greiða 100 prósent arð af nafnvirði hlutafjár, sem svarar til rúmra 10,8 milljarða króna. Það nemur 29 prósentum af hagnaði félagsins í fyrra.

Stjórnvöld hvött til dáða

Á aðalfundinum lagði Lýður Guðmundsson, stjórnarformaður Existu, áherslu á sterka stöðu Existu á fjármála- og tryggingamarkaðnum í Norður-Evrópu í gegnum stöðu sína í Kaupþingi og hinu finnska Sampo Group sem Exista á 15,5 prósenta hlut í. Sagði hann að Sampo muni leika stórt hlutverk í endurskipulagningu á norræna fjármálamarkaðnum á næstu árum.

Lýður lýsti yfir ánægju sinni með ákvörðun íslenskra stjórnvalda að breyta skattalöggjöfinni til jafns við það sem best gerist á hinum Norðurlöndunum. Hvatti hann stjórnvöld til að stíga skrefið til fulls og gera Ísland að alþjóðlegri fjármálamiðstöð.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×