Fastir pennar

Ferðast fyrir eigin afli

Steinunn Stefánsdóttir skrifar

Með hverju árinu sem líður herðir á umræðunni um umhverfismál. Bílar og útblástur frá bílum eru iðulega í brennidepli og svo var einmitt í vikunni sem leið þegar hér var haldin alþjóðleg ráðstefna um umhverfisvæna samgöngutækni.

Umræðan um eldsneyti framtíðarinnar á bíla hefur einkennst nokkuð af því að talsmenn hverrar leiðar fyrir sig hafa reynt með ráðum og dáð að hvetja menn til fylgis við sína hugmynd, þannig að svo virðist sem ákveðið áróðursstríð sé háð.

Í umræðunni vill þó oft sleppa undan sú staðreynd að umhverfisvænast af öllu hlýtur að vera að ferðast fyrir eigin afli eins og kostur er.

Reiðhjól voru þó í kastljósinu í vikunni sem leið enda var vikan sú sérstaklega kennd við samgöngur. Árni Þór Sigurðsson, fráfarandi borgarfulltrúi Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs, lagði fram tillögu í borgarstjórn um að unnin yrði sérstök hjólreiðaáætlun fyrir borgina með það að markmiði að gera hjólreiðar að fullgildum samgöngukosti. Áætlunin á annars vegar að taka til stefnumótunar um aukið aðgengi hjólafólks, en hins vegar vera framkvæmdaáætlun til nokkurra ára þar sem gera á grein fyrir einstökum verkefnum og fjármögnun þeirra. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Reiðhjól eru ákaflega þægilegir fararskjótar. Þau hafa þróast mikið undanfarin ár og eiga því fátt sameiginlegt með þeim tvíhjóla fararskjótum sem þekktust fyrir nokkrum áratugum. Það er því ekki lengur goðgá að fara ferða sinna á hjóli, jafnvel í því mishæðótta borgarlandslagi sem við búum við, eða vindasömu veðurlagi.

Aðstæður hér í borginni eru þó ekki hjólreiðafólki sérlega vinsamlegar. Göngustígarnir meðfram ströndinni eru vissulega ljómandi hjólreiðabrautir fyrir þá sem geta nýtt sér þær. Annars staðar eru sérstakar hjólreiðabrautir í algeru skötulíki. Örstuttir kaflar sem allt í einu gufa upp.

Vissulega eru fáir á ferli á flestum gangstéttum, þannig að þær nýtast hjólreiðafólki þokkalega. Malbikaðir stígar eru þó tvímælalaust aðgengilegri hjólreiðabrautir en gangstéttirnar. Það er þó ekki nóg að leggja brautir. Þær þarf líka að hirða til að koma í veg fyrir óþægindi eins og Elvar Örn Reynisson lýsti í frétt blaðsins í gær en hann varð fyrir því óláni að tvisvar sprakk á hjóli hans í samgönguvikunni vegna glerbrota á stígnum sem hann hjólar.

Það eru framsýn borgaryfirvöld sem vilja stuðla að því að gera hjólreiðar að fýsilegum valkosti. Með því að draga úr daglegum akstri til og frá vinnu er lagt lóð á vogarskálar betra samfélags, með hreinna lofti, minna svifryki og minni losun gróðurhúsalofttegunda. Vonandi verður þess ekki langt að bíða að til verði áætlun um hjólreiðamál í borginni og að aðgerðir samkvæmt henni líti dagsins ljós. Markmiðið hlýtur að vera að sem flestir uppgötvi þau gæði sem felast í að ferðast hjólandi.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×