Bakþankar

Blóm hins illa

Gerður Kristný skrifar
Síðustu helgi fóru fjölmiðlar mikinn í umfjöllun um þann kvitt að knattspyrnukonur hefðu tekið sig saman um að kjósa ekki Margréti Láru Viðarsdóttur úr Val Leikmann ársins.

Í hennar stað hlaut önnur afbragðs knattspyrnukona titilinn, Hólmfríður Magnúsdóttir úr KR. Til hamingju, Hólmfríður! Auðvitað sárnaði stúlkunum þetta umtal en Margrét Lára sagði í Kastljósi að góðir íþróttamenn kæmu bara enn sterkari til baka og hún myndi gera það. Hún er þrautseig eins og sönn Eyjastúlka. Aldrei hefði hún lagst í vol og víl í Barbaríinu, heldur hafist handa við að smíða örk til að komast aftur heim.

Fréttastofa Sjónvarpsins leitaði til Elísabetar Gunnarsdóttur, þjálfara Vals, og spurði hana út í þessi meintu samanteknu ráð og Elísabet sagði meðal annars: „Er ekki einhvers staðar sagt að konur séu konum verstar og það er spurning hvort það hafi gerst í þessu máli." Í viðtali Kastljóss við Elísabetu og Helenu Ólafsdóttur, þjálfara KR, greip spyrjandi frasann á lofti og spurði: „Á það við að konur séu konum verstar í svona toppbaráttu?" Og Helena svaraði: „Kannski er það þannig en stundum er rígur á milli kvenna."

Mikið væri undarlegt ef ekki myndaðist rígur á milli kvennanna sem keppa í sjálfri úrvalsdeildinni í fótbolta. Mér varð hugsað til þess hvað það yrði nú leiðinlegt að fylgjast með mótunum, hvað þá að keppa í þeim, ef enginn væri rígurinn og samkeppnin. Keppendur kæmu þá bara þrammandi til leiks arm í arm eins og í Bimbirimbirimbamm. Allar gættu þær stúlkurnar sín á því að stíga ekki fram fyrir hinar og reynt væri að komast hjá því að verða sér úti um stig - því við erum jú umfram allt systur en ekki andstæðingar. Keppnisandi myndi líka bara vekja úlfúð og þeir sem yrðu vitni að þeim ósköpum kæmust í mikið uppnám. Það þykir jú svo ljótt að sjá konur takast á - eitthvað svo andstætt eðli þeirra.

Síðustu daga höfum við horft upp á karla bola hverjum öðrum úr embættum, nefndum og ráðum sem aldrei fyrr en ekki hef ég séð slíka framkomu tengda upplausn í samstöðu þeirra. Svo þegar manni fljúga í hug þeir Hitler, Stalín og George Bush og útreið þeirra á heilu þjóðunum fer manni jafnvel að finnast ástæða til að taka fram nýja frasa til að ná utan um hið illa en til allrar hamingju erum við ekki jafngrimm í garð karla og sjálfsagt þykir að vera í garð kvenna. Þess vegna tautar heldur enginn: „Karlar eru heiminum verstir." Mannfyrirlitning er auðvitað það alversta sem til er.


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×