Innlent

Fjölmennar kertavökur til minningar um Lúkas

Minningarvaka á Geirsnefi
Minningarvaka á Geirsnefi MYND/Rósa
Milli hundrað og fimmtíu og tvö hundruð manns komu saman á Geirsnefi í Reykjavík klukkan átta í gærkvöldi þar sem haldin var kertavaka til að minnast hundsins Lúkasar sem drepinn var á hrottalegan hátt á Akureyri á dögunum. Um hundrað manns hittust hjá Blómavali og Húsasmiðjunni á Akureyri og var eigandi Lúkasar, Kristjana Margrét Svansdóttir, þar á meðal. Vökur voru einnig haldnar á fleiri stöðum á landinu, meðal annars í Hveragerði.

Minningarvakan á Geirsnefi fór þannig fram að nafn hundsins var letrað á staur og var blómum og kertum raðað í kring. Þögul stund var í eina mínútu og á eftir var fólki boðið að koma upp og segja nokkur orð. Margir tóku til máls en aðallega var rætt um baráttumál dýraverndunarsinna. Að sögn Freyju Kristjánsdóttur sem sá um að skipuleggja vökuna var ekki mikið rætt um drengina sem frömdu verknaðinn heldur almennt um illa meðferð á dýrum og nauðsyn þess að aðhafast í þeim efnum.

Kona sem vildi ekki láta nafns síns getið stofnaði sjóð í nafni Tryggs, hagsmunasamtaka hunda. Stofnfé í sjóðnum er hundrað þúsund krónur og verður féð notað til að gera upplýsingabæklinga um réttindi dýra og hvernig á að umgangast þau. Vonast er til að sjóðurinn vindi upp á sig og að hann geti meðal annars staðið straum af lögfræðikostnaði þeirra sem þurfa að fara í mál vegna illrar meðferðar á dýrum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×