Erlent

Skilur ekki af hverju börnin voru skilin eftir

Susan Healy ásamt manni sínum á leið til kirkju í Rothley, heimabæ Madeleine.
Susan Healy ásamt manni sínum á leið til kirkju í Rothley, heimabæ Madeleine. MYND/AFP
Móðir Kate McCann segir að hún skilji ekki af hverju hjónin hafi skilið börnin eftir í sumarleyfisíbúðinni á meðan þau fóru í kvöldverð með vinum sínum. Susan Healy kom fram í fréttaskýringaþætti BBC, Panorama, í gærkvöldi.

Þar sagði hún; „Ég verð að segja að ég er hissa á að Kate og Gerry hafi skilið börnin eftir. Ég hef hugsað mikið um þetta því þau eru svo ástríkir foreldrar og ég hugsa „af hverju?"."

Hún ítrekaði áhyggjur sínar af því að sökinni væri skellt á dóttur hennar. „Ég óttast að sönnunargögnum sé komið fyrir í þeim tilgangi," sagði hún. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Susan lýsir ótta sínum í þessum efnum.

Hún sagðist ennfremur fullviss um að Kate hefði ekki komið nálægt hvarfi Madeleine. „Ég þekki dóttur mína og veit hversu mikils virði Madeleine var henni."

Lögreglan hefur neitað að gefa upp hvaða meintu sönnunargögn þau hafa gegn McCann hjónunum. Þau fengu réttarstöðu grunaðra eftir að meint sönnunargögn fundust í bílaleigubíl og örsmá vegsummerki blóðs í sumarleyfisíbúðinni. Þá lýsti Susan því yfir að lögregla væri að reyna að koma sökinni á Kate og Gerry og sönnunargögnunum hefði komið fyrir í þeim tilgangi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×