Fastir pennar

Tölvur sem tala íslensku

Steinunn Stefánsdóttir skrifar

Í árdaga tölvunotkunar á Íslandi taldist það til kosta þess að nota Apple tölvur að viðmót þeirra var á íslensku. PC tölvur buðu hins vegar upp á viðmót á ensku og einnig flest forrit sem notuð voru á þær tölvur.

Nú hafa Apple-tölvurnar því miður ekki lengur íslenskt viðmót og PC notendur eru orðnir svo vanir enskumælandi tölvum að margir hverjir fúlsa við þeim þýðingum sem þó eru fyrir hendi á notendaviðmóti í tölvum. Þessari þróun verður að snúa við.

Margir vita ekki að Windows XP og Office 2003 stendur til boða á íslensku. Auk þess er gert ráð fyrir að þýðingar á Windows Vista og Office 2007 komi á markað í maí á þessu ári. Þessum þýðingum ættu íslenskir tölvunotendur að taka fagnandi. Það er lykilatriði fyrir þróun íslenskunnar sem gilds tungumáls í tölvuheimi að markaðurinn taki við þeim íslenskaða hugbúnaði sem þó er fyrir hendi.

Þeir sem hafa setið fyrir framan tölvur í áraraðir hafa tilhneigingu til íhaldssemi og vilja margir hverjir halda í það enskumælandi viðmót sem þeir þekkja. Það er þó fullyrt hér að á innan við hálfum degi tækist hvaða tölvuhundi sem er að venjast því að viðmót tölvunnar væri á móðurmálinu.

Nefna má farsíma til samanburðar. Í flestum nýlegri símum stendur til boða íslenskt viðmót og þeir eru fáir sem hafna því og taka ensku eða annað tungumál fram yfir móðurmálið þó að þeir hafi áður notað farsíma með ensku viðmóti.

Mestu skiptir þó að þeir sem eru að hefja tölvunotkun, börnin, alist upp við að viðmót tölvunnar sé á móðurmáli þeirra. Þannig ættu allir skólar og leikskólar að hafa metnað til þess að sýna nemendum sínum aldrei Windows-viðmótið nema á íslensku. Foreldrar ættu einnig að krefjast þess af skólum barna sinna að viðmót tölvanna sé á íslensku um leið og heimilistölvan ætti vitanlega líka að blasa við barninu á móðurmálinu.

Röksemdin sem gengur út á að gott sé að læra ensku af tölvunni stenst engan veginn. Næg tækifæri eru alls staðar í kringum okkur til að nema það góða tungumál. Auk þess verða tækifæri þeirra barna sem eiga í lestrarörðugleikum og erfiðleikum með að nema erlend tungumál miklu betri ef viðmót tölvu er á íslensku.

Óðum styttist í að hlutur hins talaða máls aukist verulega í hinni stafrænu veröld. Ef við sofnum á verðinum nú og göngumst enskumælandi tölvuumhverfi algerlega á hönd gæti farið svo að eftir undrastuttan tíma stæðum við frammi fyrir því að geta ekki stýrt heimilistækjum okkar öðruvísi en að mæla við þau á enska tungu.

Neytendur vilja síma með íslensku viðmóti. Sömuleiðis telja seljendur heimilistækja það til kosta, og auglýsa sérstaklega, stjórnborð á íslensku og íslenskar leiðbeiningar. Á sama hátt ættu neytendur að taka fagnandi íslensku viðmóti í tölvum sínum. Það getur skipt sköpum fyrir framtíð íslenskunnar.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×