Innlent

Kompásmaður opnar heimasíðu fyrir fólk í greiðsluerfiðleikum

Björgvin Þór Þorsteinsson.
Björgvin Þór Þorsteinsson.

Björgvin Þór Þorsteinsson, sem Kompás fjallaði um á dögunum, hefur opnað vefsíðuna kreppulausnir.is þar sem hann auglýsir þjónustuna sína.

Fjallað var um Björgvin í sjónvarpsþættinum Kompás nýverið og það ferli sem fólk þarf að takast á við, lendi það í greiðsluerfiðleikum eða stefni í gjaldþrot. Útsendarar Kompáss hittu Björgvin á kaffihúsi þar sem hann útskýrði tilboðið fyrir þeim og var fundurinn tekinn upp án vitundar hans. Eftir fundinn hitti Björgvin síðan Jóhannes Kr. Kristjánsson ritstjóra Kompáss.

Í yfirlýsingu sem Björgvin sendi í kjölfar þáttarins sagði hann meðal annars að umsjónarmenn þáttarins hafi reynt að gera lítið úr og rýra trúverðugleika sinn. Sama dag og þátturinn var sýndur hótaði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður Björgvins, að höfða skaðabótamál á hendur 365 hf.

Björgvin hefur í dag opnað heimasíðuna www.kreppulausnir.is, þar sem hann býður fyrirtækjum og einstaklingum upp á þjónustu sína.

„Eins og fram kemur á heimasíðunni erum við að leita að fyrirtækjum sem eru í góðum rekstri en eiga kannski við vandamál að stríða vegna mikilla skulda, sem eru að sliga eigendurna. Í þeim tilvikum bjóðum við upp á 100% yfirtöku rekstursins gegn yfirtöku skulda," segir Björgvin Þór í tilkynningu. Hann bætir því við að einnig komi til greina að aflétta hluta skulda gegn yfirtöku meirihluta hlutafjár eða að lágmarki 51%.

„Mikið af því fólki sem hefur leita til okkar hafa verið einstaklingar og við bjóðum þeim líka upp á lausnir. Þær eru meðal annars fólgnar í því að við bjóðum upp á makaskipti á eignum þeirra og eignum í okkar eigu," segir Björgvin í tilkynningunni.






Tengdar fréttir

Kompás í kvöld: Lögmaður hótar lögsókn

Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður, hefur sent fréttaskýringaþættinum Kompási bréf fyrir hönd umbjóðanda síns Björgvins Þorsteinssonar. Í bréfinu segir, að verði auglýstur Kompásþáttur sem er á dagskrá í kvöld sýndur með óbreyttu sniði, sé Björgvini nauðugur einn sá kostur að höfða skaðabótamál á hendur 365 hf.

Segir Kompás hafa valdið sér ómældum fjárhagslegum skaða

Björgvin Þór Þorsteinsson, sem var umfjöllunarefni Kompás í gærkvöldi, hefur sent frá sér yfirlýsingu í kjölfar þáttarins. Þar segir hann meðal annars að umsjónarmenn þáttarins hafi reynt að gera lítið úr og rýra trúverðugleika sinn. Björgvin segist ætla að leita til lögmanns með tilliti til þess hvort rétt sé að höfða mál á hendur ritstjóra og ábyrgðarmanni Kompáss fyrir tilraun til mannorðsmorðs og að hafa valdið sér ómældum fjárhagslegum skaða.

Kompás í kvöld: Almannahagsmunir í húfi

Jóhannes Kr. Kristjánsson, ritstjóri Kompáss, segir að málið sem tekið sé fyrir í Kompás í kvöld varði almannahagsmuni. Í þættinum er sýnt frá því þegar útsendarar Kompáss hitta Björgvin Þorsteinsson sem auglýst hafði eftir því að komast í samband við fólk sem væri illa statt fjárhagslega en þó ekki gjaldþrota. Fólkið átti að fá greitt fyrir að taka á sig skuldir óskyldra aðila þar sem það væri hvort sem er á leið í gjaldþrot.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×