Fastir pennar

Þróun sem verður að snúa við

Steinunn Stefánsdóttir skrifar

Móðurmálskunnátta og ritfærni háskólanema er áhyggjuefni háskólamanna segir í frétt blaðsins í byrjun viku. Sigurður Líndal lagaprófessor segir vankunnáttu háskólanemenda í íslensku auka álagið á kennurunum og Kristín Ingólfsdóttir háskólarektor tekur undir og segir nauðsynlegt að gerðar verði strangari kröfur um íslenskukunnáttu á fyrri stigum skólakerfisins. Þeir sem fylgst hafa með minnkandi áherslu á kennslu í móðurmálinu eru ekki undrandi á yfirlýsingum þessara tveggja háskólamanna.

Móðurmálskennsla hefur átt undir högg að sækja í íslenska skólakerfinu undanfarin ár og áratugi. Ekkert lát virðist á þeirri þróun og ýmislegt bendir til að enn eigi eftir að draga úr áherslu á móðurmálskennslu.

Sigurður Líndal bendir á að margir háskólanemar virðist ekki hafa tök á því að skrifa skilmerkilegan texta eða koma frá sér hugsun þannig að heil brú sé í. Víst er að margir háskólakennarar gætu tekið undir með Sigurði. Framhaldsskólakennarar hafa einnig kvartað undan því að nemendur komi illa undirbúnir í íslensku úr grunnskóla.

Íslensku mæla ekki nema um þrjú hundruð þúsund manns. Það þykja fáir þegar þjóðtunga á í hlut. Ábyrgð þeirra sem eiga íslensku að móðurmáli á vexti og viðgangi tungunnar er því mikil. Hitt skiptir ekki síður máli að haldgóð þekking á móðurmáli og hæfileiki til að nýta málið til að tjá sig í ræðu og riti er hverjum og einum mikilvæg.

Í stöðugt minnkandi heimi þarf vitanlega að leggja mikla áherslu á færni í erlendum tungumálum. Sú kunnátta er þeim ekki síður mikilvæg sem deila móðurmáli sínu með fáum en þeim sem deila því með mörgum. Það má hverjum vera ljóst.

Vitað er að grundvallarforsenda þess að ná tökum á erlendu tungumálið eftir máltökuskeið er einmitt að eiga sér örugga heimahöfn í móðurmálinu. Þess vegna er staðgóð móðurmáls­kunnátta eitt af því sem skiptir þá höfuðmáli sem vilja ná góðum tökum á öðrum tungumálum.

Öll rök hníga að því Íslendingar eigi að leggja meiri rækt við móðurmálið á öllum skólastigum, allt frá leikskóla upp í háskóla. Við eigum að leggja áherslu á að kenna þeim íslensku sem hingað hafa flust frá öðrum löndum. Einnig eigum við að taka þeim fagnandi sem vilja læra og tala íslensku, líka meðan þeir hafa ekki náð á henni fullum tökum. Ætli þjóðin ekki að varpa móðurmálinu fyrir róða verður íslenskan áfram að vera það tungumál sem notað er í samskiptum á Íslandi; í námi, atvinnulífi, viðskiptum, fræðimennsku og þar fram eftir götunum.

Ástandið sem Sigurður Líndal lýsti í frétt blaðsins á sunnudaginn er íslensku menntakerfi til vansa. Þróuninni verður að snúa við áður en það er orðið um seinan.





Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×