Fastir pennar

Atkvæðið er vopn almennings

Steinunn Stefánsdóttir skrifar

Bið og óöryggi hefur einkennt líf þjóðarinnar þessar októbervikur. Bið eftir upplýsingum og óöryggi vegna þess að þær berast ekki. Boðað er að hlutir skýrist á morgun eða eftir helgi og fátt eitt gerist. Sagt er að aðrir hlutir komist í lag á morgun eða eftir helgi og í ljós kemur að þeir komast ekki í lag. Þarna nægir að nefna gjaldeyrisviðskiptin og stöðu peningamarkaðssjóða.

Enn óljósara eru svör við spurningum sem snerta fjarlægari framtíð, vikur eða jafnvel ár og áratugi. Margir eru hræddir um að standa uppi atvinnulausir á næstu mánuðum og vita ekki einu sinni hvort fyrirtækið sem þeir starfa hjá muni lifa kreppuna af. Fólk spyr einnig hver áhrif hruns bankanna verði á greiðslur úr lífeyrissjóðum eftir tvö ár, tíu ár eða tuttugu og hvernig hrun bankanna muni hafa áhrif á líf þeirra barna sem nú eru að vaxa úr grasi. Þetta eru aðeins örfá dæmi um spurningar sem taka til nálægrar og fjarlægrar framtíðar og brenna á mörgum Íslendingum. Í stuttu máli fær þjóðin ekki þau skilaboð frá stjórnvöldum að þau hafi tök á málum.

Mörgum var létt þegar tilkynnt var um aðkomu Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, ekki síst vegna þess að það boðaði þó einhverja hreyfingu á málum sem verið höfðu í algerri kyrrstöðu. Enn er þó beðið eftir að í ljós komi hvað aðkoma sjóðsins þýðir í raun og veru og einnig hvort lán sjóðsins og hugsanlega einhverra annarra þjóða, muni yfirhöfuð nægja til að fleyta okkur yfir erfiðleikana.

Enn situr seðlabankastjórinn og enn situr forsætisráðherrann, formaður flokksins sem setið hefur við stjórnvölinn hér samfellt í sautján ár og hlýtur því að bera ábyrgð á þeirri peningastefnu sem hér hefur verið fylgt með þeim afleiðingum sem raun ber vitni. Vissulega er fjármálakreppa í öllum heiminum en augljóst er að óvíða, ef nokkurs staðar, kemur hún jafn hart niður og á Íslandi.

Síðustu daga hefur umræðan nokkuð beinst í þann farveg að íslenskur almenningur beri að einhverju leyti ábyrgð á því hvernig fór og vitanlega hafa ýmsir eytt um efni fram. Á hinn bóginn eru þeir líka margir sem brugðust við auknum kaupmætti með því að leggja ofurlítið fyrir. Fólk sem aldrei áður hafði átt nokkuð aflögu fór stolt í bankann sinn þáði ráðleggingar um hvernig sparað yrði með árangursríkustum hætti. Auðvitað er sá hópur í mun skárri stöðu en miðað við þá ábyrgð sem hann sýndi verður að segjast að honum hefur verið gefið langt nef.

Íslenskur almenningur ber ekki ábyrgð á hruni bankanna, ekki að öðru leyti en því að hver og einn ber ábyrgð á því hvernig hann ver atkvæði sínu í kosningum. Þjóðin ákvað að senda Framsóknarflokkinn heim í síðustu kosningum. Hins vegar veitti hún Sjálfstæðisflokknum áfram brautargengi til að vera í forystu í ríkisstjórn. Kjósendur þurfa að gera upp við sig hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi verið þess trausts verður áður en þjóðin gengur næst til kosninga.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×