Fastir pennar

Hollráð

Þorsteinn Pálsson skrifar

Um það bil sem veturinn gekk í garð árið 2001 komst þáverandi forsætisráðherra svo að orði um hlutverk Seðlabankans: „Og svo þarf hann að huga að því hvort mjög háir vextir séu örugglega til þess fallnir að lækka verðbólgu. Það mætti hugsa sér að mjög háir vextir geti haft þveröfug áhrif."

Þessar efasemdir voru settar fram þegar ný stefna í peningamálum hafði verið framkvæmd í nokkra mánuði. Síðan eru liðin sjö ár. Í Markaði Fréttablaðsins í gær komast stjórnarþingmennirnir Bjarni Benediktsson og Illugi Gunnarsson að þeirri niðurstöðu að reynslan kalli á endurmat peningamálastjórnarinnar.

Þingmennirnir taka svo hraustlega til orða að hægt sé að stöðva verðbólgu með því að drepa hagkerfið með vöxtum. Að þeirra áliti er það hins vegar ekki ásættanleg niðurstaða. Þar af leiðir að þeir kalla eftir að vítahringur vaxta, gengis og krónubréfa verði rofinn og vilja að Seðlabankanum verði hjálpað til þess að búa til þær aðstæður að lækka megi vexti.

Í raun réttri þýða þessi ummæli að ríkisstjórnin leggi Seðlabankanum til hagfræðileg rök til þess að víkja frá þeim reikniformúlum sem gefa fyrirsjáanlega niðurstöðu um áframhald hávaxta. Það væri í góðu samræmi við yfirlýsingu forsætisráðherra á ársfundi Seðlabankans í vor sem leið og rökrétt ályktun af efasemdum fyrrverandi forsætisráðherra þegar fyrst reyndi á gildandi lög um sjálfstæði Seðlabankans.

Sjálfsagt eru flestir sammála því að horfið verði frá frekari tilraunum til að halda uppi gengi krónunnar með erlendum vaxtamunarlántökum. En böggull fylgir skammrifi eins og jafnan. Eitthvað þarf að koma í staðinn sem gefur gjaldmiðlinum gildi. Þegar þar að kemur verða skoðanir skiptar.

Aukinn hagvöxtur með sköpun nýrra verðmæta er í raun og sannleika eina leiðin til þess að skjóta stoðum undir gjaldmiðilinn. Þingmennirnir benda því eðlilega á að óhjákvæmilegt er að við nýtum okkur það forskot sem við höfum fram yfir margar aðrar þjóðir með því að beisla þá orku sem eðlilegt getur talist. Á móti eru svo þeir sem trúa að unnt sé að verja lífskjörin án aukins hagvaxtar.

Við þurfum einfaldlega meira af erlendu fjárfestingarfjármagni en minna af erlendum lánum. Orkunýtingin er sá kostur sem nærtækastur er í þeim tilgangi. Þessa stefnu þarf hins vegar að framkvæma svo hiklaust og markvisst að erlendir fjárfestar og fjármálamarkaðir hafi trú á að hlutirnir séu gerðir af því afli og með þeim hraða sem þarf til að styrkja gjaldmiðilinn.

Á tveimur árum á að vera unnt að vinna þjóðarbúskapinn upp úr lægðinni. Þegar þar að kemur vaknar spurningin hver framtíðarstefnan í peningamálum á að vera. Þá vandast málið á ný. Sumir vilja treysta á krónuna þrátt fyrir bitra reynslu af veikleikum hennar. Það kostar harðar ríkisfjármálaaðgerðir.

Aðrir vilja taka upp evru með inngöngu í Evrópska myntbandalagið og væntanlega einnig Evrópusambandið. Það kallar á erfiðar aðgerðir í ríkisfjármálum í samræmi við þær kröfur sem til aðildarþjóðanna eru gerðar þar að lútandi.

Fyrstu vísbendingar um hvert stefnir má sjá í fjárlagafrumvarpinu í haust. Verði fjárlög næstu ára í jafnvægi má túlka það sem tilraun til að viðhalda krónunni til lengri tíma. Fari hallinn ekki yfir þrjá af hundraði landsframleiðslu er möguleikanum á evru haldið opnum. Náist hvorugt markmiðið gætu frómar óskir um varanlegan stöðugleika í peningamálum orðið óvissu undirorpnar enn um sinn.











Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×