Viðskipti erlent

Skip Atlantic Petroleum fær vopnaða vernd á Aden-flóanum

Atlantic Petroleum hefur fengið afhent olíuframleiðslu-og geymsluskipið Aoka Mizu frá skipasmíðastöð í Singapore. Ætlunin er að flytja það frá Singapore til Rotterdam á næstunni. Leið skipsins mun liggja um Aden-flóann og segir Wilhelm Petersen forstjóri Atlantic að á þeirri leið muni skipið fá vopnaða vernd.

Eins og kunnugt er af fréttum hafa sjóræningjar herjað á Aden-flóanum og næsta nágrenni af miklum krafti í ár. Aoka Mizu er á stærð við meðalstórt olíuflutningaskip en með borpalli og siglir því ekki hratt, aðeins níu hnúta á tímann. Yrði skipið því sjóræningjum auðveld bráð ef engin vernd er til staðar.

Samkvæmt frétt á börsen.dk. er ætlunin að skipið fari frá Rotterdam og út á Ettrick svæðið í Norðursjó þar sem Atlantic á hlut að olíusvæði. Aoku Mizu getur framleitt 25.000 tunnur af olíu á dag.

Wilhelm Petersen segir að skipasmíðastöðín í Singapore, Blue Water, beri ábyrgð á því að Aoku Mizu komist klakklaust til Rotterdam. Því hafi Blue Water ákveðið að senda fylgdarskip með Aoku Mizu og verði vopnaðir verðir þar um borð á sólarhringsvöktum þar til Aoku Mizu kemst að Súez-skurðinum.

Aðspurður um hvort ekki hafi verið einfaldara að senda Aoku Mizu suður fyrir Afríku segir Petersen að slíkt hefði tekið rúmlega mánuð í viðbót. Með þessu móti komist Aoku Mizu í gagnið á fyrsta ársfjórðungi næsta árs.









Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×