Innlent

Skilur eftir sig fjórtán milljarða skuldaslóð

Finnur Ingólfsson, fyrrverandi viðskiptaráðherra og Seðlabankastjóri, skilur eftir sig fjórtán milljarða skuldaslóð við gjaldþrot Langsflugs. Ríkisbankarnir Landsbanki og Íslandsbanki sitja uppi með á annan tug milljarða tjón og litlar sem engar eignir.

Félagið var stofnað árið 2006 um hlut í Icelandair Group sem Eignarhaldsfélag Samvinnutrygginga keypti. Eignarhaldsfélaginu var slitið ári síðar og voru eignirnar fluttar í nýtt félag sem fékk nafnið Gift. Gift átti þar með þriðjung í Langflugi á móti Finni Ingólfssyni. Finnur gegndi stöðu iðnaðar- og viðskiptaráðherra frá 1995 - 1999. Þá var hann seðlabankastjóri frá árinu 2000 til 2002. Þá tók hann þátt í að kaupa Búnaðarbankann af ríkinu ásamt Ólafi Ólafssyni og fleirum.

Þann 25. maí leysti skilanefnd Landsbankans til sín 23,84% hlut Langflugs í Icelandair Group. Hluturinn sem var innleystur var trygging gegn lánum vegna hlutabréfa í Icelandair Group. Við þetta varð eignarhlutur ríkisins í Icelandair 80%.

Frestur til að lýsa kröfu í þrotabú Langflugs rann út í gær og nema kröfur í búið rúmum 14 milljörðum króna. Kröfuhafar eru tveir: Íslandsbanki með rúma 5 milljarða og Landsbankinn með rúma 8 milljarða. Í efnahagsreikningi Langflugs frá árinu 2007 kemur fram að endurskoðandi þess er Lárus Finnbogason en hann var jafnframt formaður skilanefndar Landsbankans sem er stærsti kröfuhafi Langflugs. Í samtali við fréttastofu sagði Benedikt Ólafsson, skiptastjóri Langflugs, að nánast engar eignir væru í félaginu. Þrot félagsins lendir því nær alfarið á Landsbankanum og Íslandsbanka.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×