Innlent

Nýr bæjarstjóri tekinn við á Ísafirði

Daníel Jakobsson tók við lyklum Halldórs Halldórssonar í gær
Daníel Jakobsson tók við lyklum Halldórs Halldórssonar í gær

Að loknum fundi bæjarstjórnar Ísafjarðarbæjar í gærkvöldi afhenti fráfarandi bæjarstjóri, Halldór Halldórsson, eftirmanni sínum, Daníel Jakobssyni, lykla að skrifstofu bæjarstjóra. Gengið hafði verið frá ráðningu Daníels á fundi bæjarstjórnar skömmu áður og hefur hann nú formlega tekið við störfum.

Daníel er fæddur árið 1973 og varði hluta sinna uppeldisára á Ísafirði, en hann er sonur hjónanna Auðar Daníelsdóttur og séra Jakobs Hjálmarssonar sem starfaði lengi sem sóknarprestur í bænum. Daníel er kvæntur Hólmfríði Völu Svavarsdóttur og eiga þau þrjú börn. Daníel var útibússtjóri Landsbanka Íslands að Laugarvegi 77 í Reykjavík áður en hann varð bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar.

Halldór Halldórsson er fæddur í Kálfavík við Skötufjörð í Ísafjarðardjúpi, sonur Halldórs Hafliðasonar og Maríu Sigríðar Guðröðardóttur. Halldór er kvæntur Guðfinnu Margréti Hreiðarsdóttur. Hann hefur starfað sem bæjarstjóri Ísafjarðarbæjar í 12 ár og verið oddviti sjálfstæðismanna í bæjarstjórn síðastliðin 8 ár. Þar áður var hann framkvæmdastjóri Fjórðungssambands Vestfjarða. Síðustu ár hefur hann einnig starfað sem formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×