Innlent

„Hver borgaði Framsókn?“

Kristinn var þingflokksformaður Framsóknarflokksins á árunum 1999-2003. Hann átti einnig sæti á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið og Frjálslynda flokkinn.
Kristinn var þingflokksformaður Framsóknarflokksins á árunum 1999-2003. Hann átti einnig sæti á Alþingi fyrir Alþýðubandalagið og Frjálslynda flokkinn.
„Sá flokkur sem sópar undir teppið er að víkja sér undan ábyrgð. Það er Framsóknarflokkurinn að gera. Hann hefur ekki gert hreint fyrir sínum dyrum," segir Kristinn H. Gunnarsson, fyrrverandi þingflokksformaður Framsóknarflokksins, í grein í Morgunblaðinu í dag.

Kristinn segir að þess sé krafist að stjórnmálaflokkar og frambjóðendur þeirra upplýsi að fullu hverjir styrktu þá fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006 og þingkosningarnar árið eftir. Á þessu kjörtímabili hafi fjármálafyrirtæki haft sérstakan áhuga á Orkuveitu Reykjavíkur. Hann spyr hvort nokkur sé búinn að gleyma darraðardansinum á árunum 2006 og 2007 um Geysi Green Energy, REI og hverjir hafi verið aðalleikarar þar.

„Blandast nokkrum hugur um sambandið milli þessara afskipta nokkurra útrásarvíkinga landsins og tíðra meirihlutaskipta í borgarstjórninni? Kannski var stærsta spillingin í íslenskum stjórnmálum í seinni tíð einmitt þar," segir Kristinn.

Hann segir að Framsóknarflokkurinn hefði svarað kallinu og skipt um fólk. Flokkurinn hefði aftur á móti ekki gert hreint fyrir sínum dyrum og ekki gefið skýringar á því hvers vegna Björn Ingi Hrafnsson, borgarfulltrúi flokksins, sagði af sér í janúarmánuði 2008. „Var það vegna óeðlilegra fjárhagslegra tengsla við athafnamenn í REI-málinu? Hverjir voru það sem styrktu hann og flokkinn um tugi milljóna króna fyrir borgarstjórnarkosningarnar 2006? Voru það sömu aðilar og hugðust komast yfir Orkuveitu Reykjavíkur?"

Þá segir Kristinn að enn sé eftirfarandi spurningu ósvarað: „Hver borgaði Framsókn?"



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×