Innlent

Gylfi Magnússon: „Krossleggjum fingur og vonum það besta“

Gylfi Magnússon er sáttur við að Ísland er komið aftur á dagskrá hjá AGS.
Gylfi Magnússon er sáttur við að Ísland er komið aftur á dagskrá hjá AGS.

„Þetta eru afar góðar fréttir," segir Gylfi Magnússon, viðskiptaráðherra, en Ísland er komið á dagskrá stjórnar Alþjóðagjaldeyrissjóðsins varðandi endurskoðun á efnahagsáætlun Íslands. Fundurinn verður haldinn föstudaginn 16. apríl.

„Við höfðum miklar áhyggjur af því að sagan frá því í fyrra myndi endurtaka sig en því virðist hafa verið afstýrt," segir Gylfi en endurskoðuninni hefur margsinnis verið frestað og vilja menn tengja það við Icesave deiluna sem Ísland á við Bretland og Holland en bæði ríkin sitja í stjórn sjóðsins.

Aðspurður hvort hann sé vongóður um að endurskoðunin verði samþykkt svarar Gylfi: „Við metum stöðuna þannig að það bendir ekki til annars en að þetta verði samþykkt með víðtækum stuðningi. Við eigum ekki von á andmælum."

Gylfi áréttar að það verði þó að bíða eftir niðurstöðu stjórnarinnar.

„Við krossleggjum fingur og vonum það besta," segir Gylfi sem er vongóður um að ef endurskoðunin verði samþykkt þá geti ríkisstjórnin náð þeim markmiðum sem sett voru í upphafi árs.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×