Lífið

Eva norn gefur út bók um ýlandi dræsur

Kápa bókarinnar. Ingólfur Júlíusson tók myndina.
Kápa bókarinnar. Ingólfur Júlíusson tók myndina.

Eva Hauksdóttir, sem var áberandi í búsáhaldabyltingunni, hefur gefið út bókina: Ekki lita út fyrir - Sjálfshjálparbók fyrir mig og aðrar ýlandi dræsur.

„Þetta er bók sem lýsir einsemd mannsins í heimi hræsninnar og blygðunarkenndar," segir Eva sem oft hefur verið kölluð Eva norn þar sem hún stundar kukl.

Í bókinni má finna fjölda ljósmynda, meðal annars nektarmyndir af Evu sem Ingólfur Júlíusson, ljósmyndari tók.

Eva segir bókina gefa dræsunni rödd og útlit en að hennar mati hefur sú manngerð búið við þöggun í nútímasamfélagi.

„Dræsan er manneskja, oftast kona, sem með hegðun, hugsunarhætti og klæðnaði ögrar hugmyndum varðandi siðferði og kynlíf," segir Eva sem lítur á dræsuna sem hápólitíska manneskju sem er á einhvern hátt á skjön við ríkjandi viðhorf samfélagsins.

„Sem þýðir ekki að þær séu einhverjir fávitar, því það er hugsun á bak við það," útskýrir Eva.

Aðspurð um titil bókarinnar segir hún ýlandi dræsur stolinn frasa frá Stellu í kvikmyndinni Stella í orlofi.

Hún segir bókina ekki tengjast búsáhaldabyltunni á nokkurn hátt, þó hún hafi verið fyrirferðamikil þar.

„Það er sama hvort það er galdur eða uppreisn gegn ríkisstjórn eða hvort það er hugarheimur dræsunnar, allt ber þetta að sama brunni sem er pólitík," segir Eva sem trúir því að stjórnmálin megi finna í öllu í lífinu og bætir við:

„Ég er í hlutverki manneskjunnar sem gagnrýnir viðtekin gildi og er tilbúin að standa gegn þeim sem er enn einn flötur á því," segir hún um pólitíkina og útgáfu bókarinnar.

Bókin kemur út á næstu dögum og má finna í helstu bókabúðum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.