Fastir pennar

Fyrirtækin verða stöðnun að bráð

Steinunn Stefánsdóttir skrifar

Á Íslandi hefur 4.321 fyrirtæki á að skipa stjórnum með jöfnu kynjahlutfalli, þ.e. 40/60 hlutfall eða einn fulltrúi annars kynsins situr í þriggja manna stjórn.Á Íslandi hefur 4.321 fyrirtæki á að skipa stjórnum með jöfnu kynjahlutfalli, þ.e. 40/60 hlutfall eða einn fulltrúi annars kynsins situr í þriggja manna stjórn. Full ástæða er til að hampa þessum fyrirtækjum en því miður alls ekki tímabært að fagna góðum árangri. Á sama tíma eru nefnilega 22.327 fyrirtæki á Íslandi með stjórnir sem eingöngu eru skipaðar körlum. Þetta má lesa úr gögnum sem safnað hefur verið af Creditinfo.

Í nýlegri rannsókn Creditinfo er sýnt fram á að fyrirtækjum þar sem bæði kyn eru í stjórn vegnar betur en fyrirtækjum þar sem stjórnin er eingöngu skipuð körlum. Þessi fyrirtæki sýna einfaldlega betri útkomu í rekstri.

Einnig kemur í ljós að í 95% fyrirtækja þar sem eingöngu karlmenn sitja í stjórn eru ráðnir karlmenn í störf forstjóra eða framkvæmdastjóra. Það liggur því fyrir að ef auka á hlutdeild kvenna í stjórnunarstörfum á almennum vinnumarkaði þá verður að byrja á byrjuninni sem er að jafna kynjahlutfallið í stjórnum félaganna. Og það er brýnt að auka hlut kvenna á toppnum í fyrirtækjunum, ekki síst sé litið til þess að fyrirtæki sem stýrt er af konum sýna betri arðsemi eigin fjár en fyrirtæki undir stjórn karla, auk þess sem þau eru ólíklegri til að vera í vanskilum.

Tæpt ár er liðið síðan undirritaður var samstarfssamningur Samtaka atvinnulífsins, Félags kvenna í atvinnurekstri og Verslunarráðs Íslands um að fjölga konum í forystusveit íslensks atvinnulífs með það að markmiði að hlutur hvors kyns verði ekki undir 40%. Það verður fróðlegt að fylgjast með árangrinum í vor þegar ár er liðið frá undirritun samningsins og aðalfundir flestra fyrirtækja verður um garð genginn. Boltinn er nú hjá fyrirtækjunum og rétt að gefa þeim kost á að grípa hann og skora.

Þolinmæðin er hins vegar ekki óþrjótandi og vera kann að setja þurfi fyrirtækjunum umferðarreglur til að fara eftir. Þannig kann að reynast nauðsynlegt að áskilja fyrirtækjum að skipa stjórnir sínar í jöfnum kynjahlutföllum rétt eins og ökumönnum er áskilið að halda sig innan ákveðins hámarkshraða.

Tæplega tuttugu prósent stjórnarmanna í hlutafélögum á Íslandi eru konur. Hlutfallið er hins vegar 51 prósent sé litið til varastjórna. Þorri þeirra kvenna er áreiðanlega meira en tilbúinn til að taka sæti í aðalstjórn. Klisjan um að konur séu ekki tilbúnar til að takast á við stjórnarsetu heldur því engan veginn.Samtök atvinnulífsins, Félag kvenna í atvinnurekstri, Viðskiptaráð Íslands, Leiðtoga-Auður, iðnaðarráðuneytið, efnahags- og viðskiptaráðuneyti og Creditinfo efndu í gær til þings þar sem fjallað var um fjölbreytni í forystu fyrirtækja. Aldrei hafa fleiri karlmenn sést á fundi þar sem jafnréttismál kynja eru til umfjöllunar en hlutfall þeirra var 43 prósent.

Vænta má þess að allir þessir karlar hafi komið út af fundinum nokkru meðvitaðri um þau verkefni sem fram undan eru til að auka hlut kvenna við stjórnun fyrirtækja á Íslandi, öllum til hagsbóta vel að merkja. Nú þarf að bretta upp ermarnar.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×