Innlent

Milljarða einkasjúkrahús út í sandinn

Skipulagsyfirvöld í Reykjavík eru enn að velta fyrir sér umsókn frá í mars fyrir einkasjúkrahús en forsvarsmaður undirbúningsfélagsins segir áformin hafa runnið út í sandinn í millitíðinni. Fréttablaðið/GVA
Skipulagsyfirvöld í Reykjavík eru enn að velta fyrir sér umsókn frá í mars fyrir einkasjúkrahús en forsvarsmaður undirbúningsfélagsins segir áformin hafa runnið út í sandinn í millitíðinni. Fréttablaðið/GVA
Útlit er fyrir að ekkert verði af stofnun og rekstri einkasjúkrahúss sem áformað var í Reykjavík. Litháíska verktakafyrirtækið Adakris hugðist taka þátt í verkefninu en er hætt við að sögn Sigríðar Þorsteinsdóttur, forsprakka undirbúningsfélags spítalans.

Einkasjúkrahúsið átti að sérhæfa sig í mjaðma- og hnjáliðaaðgerðum fyrir útlendinga frá Evrópska efnahagssvæðinu og Bandaríkjunum. Samkvæmt erindi Sigríðar til þáverandi borgarstjóra í vor sem leið var áætlað að bygging spítalans myndi kosta 4 til 4,5 milljarða króna og hafa um 180 stöðugildi þegar reksturinn væri hafinn. Vilyrði væri komið fyrir fjármögnun.

Erindi Sigríðar, sem og bréf sem Ástráður Haraldsson hæstaréttarlögmaður skrifaði þáverandi borgarstjóra í mars fyrir hönd undirbúnings­félagsins, var áframsent til skipulagsstjóra borgarinnar. Þar var ákveðið á föstudag að kynna málið fyrir formanni skipulagsráðs. Það er hins vegar um seinan ef marka má Sigríði.

„Við höfum aldrei fengið neitt svar frá borginni og héldum að þetta mál væri einfaldlega komið út úr kortinu. Þá hefur Adakris dregið sig út og peningar skila sér ekki. Verkefnið er því í algjöru frosti,“ segir Sigríður Þorsteinsdóttir. - gar



Fleiri fréttir

Sjá meira


×