Körfubolti

Jón Halldór: Stoltur af stelpunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mynd/Daníel
„KR er með ótrúlega vel mannað lið og ég er stoltur af stelpunum að hafa unnið þær bæði í bikarnum og svo aftur hér í kvöld," sagði Jón Halldór Eðvaldsson, þjálfari Keflavíkur, eftir sigurinn á KR í kvöld.

Keflavík varð um helgina bikarmeistari eftir sigur á KR í úrslitaleik en liðin mættust aftur í Iceland Express-deild kvenna í kvöld.

„Þetta var spennufall eftir helgina og því erfitt að koma stelpunum í gírinn fyrir leikinn. Það mátti því búast við því að þetta yrði erfitt hjá báðum liðum í kvöld. Það kom á daginn en sem betur fer datt sigurinn okkar meginn," sagði hann.

Það var í raun lítið undir í leiknum þar sem að KR er öruggt með þriðja sæti deildarinnar og nánast fullvíst að Keflavík verður í öðru sæti.

„Þetta var góður sigur fyrir leikmennina og móralinn í liðinu. Ekki síst fyrir Ingibjörgu sem hefur verið að koma úr erfiðum meiðslum," bætti þjálfarinn við en Ingibjörg Jakobsdóttir tryggði Keflavík sigurinn með þriggja stiga flautukörfu í kvöld. Leiknum lauk með 63-61 sigri Keflavíkur.

„Það er ekki oft sem það gerist að maður vinnur á flautukörfu og það er vissulega ótrúlega skemmtilegt," sagði Jón Halldór.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×