Helgi Jónas Guðfinnsson, þjálfari Íslandsmeistara Grindavíkur, mun ekki þjálfa liðið áfram en hann hefur tilkynnt stjórn körfuknattleiksdeildar Grindavíkur að hann ætli að hætta með liðið. Þetta kemur fram á heimasíðu Grindavíkur.
Helgi Jónas hefur þjálfað Grindavíkurliðið undanfarin tvö tímabil en liðið vann 27 af 32 leikjum sínum á Íslandsmótinu í ár, 19 af 22 í deildarkeppnini og 8 af 10 í úrslitakeppninni.
Helgi Jónas varð á dögunum fyrsti þjálfari Grindavíkur í sextán ár til að gera liðið að Íslandsmeisturum en hann var leikmaður liðsins þegar liðið varð Íslandsmeistari undir stjórn Friðriks Inga Rúnarssonar árið 1996.
Hér fyrir neðan má sjá fréttina á umfg.is í kvöld.
"Helgi Jónas Guðfinnsson tilkynnti stjórn körfuknattleiksdeildar Grindavíkur í dag að hann óski eftir að hætta störfum með liðið sökum anna í vinnu sinni.
Aðilar skilja í mesta bróðerni en gífurleg ánægja var með störf Helga og árangurinn á þessu tímabili auðvitað hreint út sagt stórkostlegur þar sem sjálfur Íslandsmeistaratitillinn var rúsínan í pylsuendanum.
Stjórn kkd.umfg óskar Helga Jónasi alls hins besta í framtíðinni og hann mun örugglega snúa aftur einhvern tíma síðar.
Engin ákvörðun hefur verið tekin um eftirmann Helga.
Stjórn kkd.umfg."
