Íslenski boltinn

Haukar unnu 31-0 í bikarkeppni KSÍ

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Haukar skoruðu 31 mark í kvöld.
Haukar skoruðu 31 mark í kvöld. Mynd/HAG
Fjölmargir leikir fóru fram í 32-liða úrslitum Bikarkeppni KSÍ en hæst bar ótrúlegur sigur Hauka á Snæfelli, 31-0. Viktor Smári Segatta skoraði tíu mörk í leiknum.

Sannarlega ótrúlegar tölur en Snæfell leikur í C-riðli í 3. deildinni. Liðið er reyndar að tefla fram liði í 3. deildinni í fyrsta sinn síðan 2008.

Aðeins þrír leikmenn voru á bekknum hjá Snæfelli í kvöld og yngsti leikmaður liðsins er á fimmtánda aldursári.

Enok Eiðsson skoraði sex mörk fyrir Hauka og Aron Freyr Eiríksson fjögur. Aðra markaskorara má sjá neðst í fréttinni.

1. deildarlið ÍR féll úr leik í kvöld eftir 4-2 tap fyrir Njarðvík en KA, Víkingur R., Víkingur Ó., Leiknir og Þróttur eru öll komin áfram.

Öll úrslit í leikjum kvöldsins má sjá á urslit.net en þar má einnig sjá markaskorara.

Markaskorarar Hauka í kvöld: Viktor Smári Segatta 10, Enok Eiðsson 6, Aron Freyr Eiríksson 4, Magnús Páll Gunnarsson 2, Gunnlaugur Fannar Guðmundsson 2, Björgvin Stefánsson 2, Guðmundur Viðar Mete 1, Aron Jóhannsson 1, Aran Nganpanya 1, Hilmar Trausti Arnarsson 1, Alexander Freyr Sindrason 1.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×