Erlent

Dómur yfir Pussy Riot í dag

mynd/AFP

Dómur verður kveðinn upp yfir meðlimum pönkhljómsveitarinnar Pussy Riot í dag. Stúlkurnar þrjár eru ákærðar fyrir óspektir og guðlast en þær stóðu fyrir svokallaðri pönkbæn í dómkirkju í Moskvu í febrúar.

Þar sungu þær mótmælasöngva og beindust þeir að rússnesku rétttrúnaðarkirkjunni og stuðningi hennar við framboð Vladimírs Pútín til forseta Rússlands.

Rétttrúnaðarkirkjan hefur beitt sér fyrir því að stúlkurnar hljóti þunga refsingu vegna athæfisins. Þyngsta mögulega refsing er sjö ár en saksóknarar í málinu hafa farið fram á þriggja ára fangelsisvist.

Almenningur í Rússlandi virðist vera klofinn í afstöðu sinni til málsins. Margir segja framferði dómsmálayfirvalda vera óviðunandi og að illa hafi verið farið með stúlkurnar. Þá hefur því verið haldið fram að málið sé liður í stórsókn rússneskra yfirvalda gegn andófsmönnum í landinu.

En málið hefur ekki aðeins vakið athygli í Rússlandi. Listamenn víða um heim hafa lýst yfir stuðningi við stúlkurnar, þar á meðal eru Madonna, Paul McCartney og Björk.

Talið er að dómurinn verði kveðinn upp klukkan ellefu fyrir hádegi í dag. Hafa stuðningsmenn Pussy Riot víða um heim boðað til mótmæla við rússnesk sendiráð.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×