Innlent

„Við förum yfir okkar verklagsreglur"

Páll Winkel, fangelsismálastjóri
Páll Winkel, fangelsismálastjóri

„Við förum yfir okkar verklagsreglur og athugum hvað það var sem þarna gerðist nákvæmlega, en við erum ekki tilbúin að tjá okkur meira um þetta. Ég vísa bara á lögregluna sem fer með rannsókn málsins," segir Páll Winkel, fangelsismálastjóri.

Matthías Máni Erlingsson, sem afplánar nú dóm fyrir tilraun til manndráps, strauk af Litla Hrauni í gær. Leit að honum hefur staðið yfir í gærkvöldi og í nótt, en án árangurs. Lögreglan á Selfossi rannsakar málið.

Páll segir að alltaf sé möguleiki á stroki. „Það er ekkert fangelsi þannig byggt að það sé algjörlega útilokað að menn strjúki. En það sem við getum gert, er að auka líkurnar á að það gerist ekki. Lengi vel var engin áhersla á öryggismál í fangelsiskerfinu, en það hefur verið að breytast á síðustu árum," segir hann, og vísar meðal annars til endurbóta sem eru í gangi á Litla Hrauni og byggingu nýs fangelsis á Hólmsheiði.

Matthías er 171 sentímetri á hæð, grannvaxinn, í grárri hettupeysu, dökkum buxum og með svarta prjónahúfu á höfði. Þeir sem hafa upplýsingar um ferðir hans eru beðnir um að hafa samband við lögregluna á Selfossi í síma 480-1010.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×