Fastir pennar

Hindranir hugarfarsins

Eins og orðið hefur áþreifanlega vart við á undanförnum misserum er ekki til nein útfærð stefna um erlendar fjárfestingar á Íslandi. Í stjórnarsáttmálanum er sett fram það markmið að auka þær, en einstakir ráðherrar, fyrst og fremst úr Vinstri grænum, hafa hins vegar lagt sig í framkróka að spilla fyrir fjárfestingarverkefnum, sem sum hver hafa verið komin vel á veg.

Nú hefur verið stigið skref í átt til þess að marka skynsamlega stefnu um erlendar fjárfestingar, sem hefur raunar aldrei verið til hér á landi. Stuttu áður en hann lét af ráðherraembætti lagði Árni Páll Árnason, þá efnahags- og viðskiptaráðherra, fram tillögu til þingsályktunar um slíka stefnu, sem unnin var í samráði við Katrínu Júlíusdóttur iðnaðarráðherra.

Þingsályktunartillagan sjálf er stutt plagg; þar er markmiðið ítrekað og útfært og efnahags- og viðskiptaráðherra og iðnaðarráðherra (sem bráðlega verður sami ráðherrann, Steingrímur J. Sigfússon), falið að leggja fyrir vorþingið tímasetta áætlun um hvernig eigi að bæta samkeppnisstöðu Íslands gagnvart erlendum fjárfestingum, efla markaðsstarf og samræma stjórnsýslu.

Í tillögunni er tvennt sem vekur sérstaka athygli. Annars vegar er lagt til að þingið álykti að íslenzk stjórnvöld skuli „tryggja gagnsæja meðferð mála er varða erlenda fjárfestingu og að gildandi reglur séu jafnan skýrar og ótvíræðar." Hins vegar er lagt til að þingið árétti „að enginn vafi leiki á að stjórnarskrá, lög og reglur verji eignarréttindi erlendra fjárfesta á Íslandi með sama hætti og eignir íslenskra ríkisborgara."

Í greinargerð með tillögunni er þetta meðal annars rökstutt þannig: „Til að draga úr því sem flokka má sem pólitíska óvissuþætti er mikilvægast að lagarammi um beina erlenda fjárfestingu sé skýr þannig að fyrir liggi hvað sé heimilt og hvað ekki og draga úr matskenndum ákvörðunum. Óvissa um lagalega stöðu og vernd fjárfestinga og ákvarðanir sem byggjast á pólitísku mati einstakra ráðherra fremur en skýrum lagaramma eru allt þættir sem draga úr trausti fjárfesta."

Þetta eru athyglisverð ákvæði í stjórnartillögu, ekki sízt í ljósi þess að annar stjórnarflokkurinn, VG, hefur ítrekað gefið í skyn að taka megi eignir erlendra fjárfesta eignarnámi og/eða ógilda löglega gerða kaupsamninga og einstakir ráðherrar sama flokks hafa verið duglegir að taka „matskenndar ákvarðanir" sem leggja stein í götu erlendra fjárfestinga.

Í greinargerð tillögunnar er bent á að tvískinnungur og hugarfarslegar eða óáþreifanlegar hindranir séu í vegi erlendrar fjárfestingar. „Þannig hefur oft verið lýst almennum skilningi á mikilvægi erlendrar fjárfestingar, en jafnframt andstöðu við þau fjárfestingaráform sem uppi eru hverju sinni," segir þar. Vitnað er til starfshóps iðnaðarráðherra, sem rak sig meðal annars á þá „ranghugmynd að hagnaður erlendra fjárfesta hljóti að vera tilkominn fyrir tap íslenskra aðila".

Þetta eru góðar og nauðsynlegar tillögur, sem fyrrverandi efnahags- og viðskiptaráðherra lagði fyrir þingið. Og verður virkilega spennandi að sjá hvernig arftaka hans, formanni VG, gengur að fylgja þeim eftir og rífa niður hindranir hugarfarsins í sínum eigin flokki.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.



×