Innlent

Nítján ára dúx á leið í Listaháskólann

Auður Lóa Guðnadóttir
Auður Lóa Guðnadóttir
„Ég hef verið að leggja hart að mér og reyna að gera mitt besta," segir Auður Lóa Guðnadóttir, nítján ára gamall dúx Fjölbrautarskólans í Breiðholti, spurð hvort árangurinn hafi komið henni á óvart.

Auður Lóa fékk 9,05 í meðaleinkunn en hún lauk stúdentsprófi af listnámsbraut skólans á þremur árum. Hún hlaut að auki fjölda verðlauna fyrir námsárangur í einstökum greinum á útskriftarathöfninni, sem fór fram í Háskólabíói í gærdag.

Auður Lóa segist ekki hafa verið ákveðin í því frá upphafi að klára námið á þremur árum.

„Nei, ég var búin að taka eitthvað smá í ensku í fjarnámi áður og svo ákvað ég eftir fyrsta árið að það væri jafnvel bara skemmtilegra að taka þetta á þremur árum því myndlistarbrautin er í sjálfu sér bara þrjú ár."

Fyrr í vikunni fékk Auður Lóa bréf þess efnis að hún hefði komist inn í myndlistardeild Listaháskóla Íslands, og þar hefur hún nám í haust. „Ég hélt eftir viðtalið að ég myndi ekki komast inn, mér fannst ég alveg klúðra því, en svo fékk ég bréf fyrr í vikunni," segir hún.

Fjöldi nemenda hefur farið af listnámsbrautinni yfir í Listaháskólann og Auður Lóa segist þekkja nokkra aðra af brautinni sem hafi sótt um nú. Allir komust inn. Hún segir að námið veiti mjög góðan undirbúning.

Fréttablaðið náði tali af Auði Lóu stuttu eftir að útskriftarathöfninni lauk. Hún fagnaði með veislu seinni partinn í gær. En hvað tekur svo við fram að náminu í Listaháskólanum?

„Í sumar ætla ég að fara með fjölskyldunni til Parísar í þrjár vikur. Annars verð ég að vinna í Fossvogskirkjugarði." thorunn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×