Erlent

Úrskurður í máli Rachel Corrie í dag

Craig Corrie
Craig Corrie
Dómstóll í Ísrael mun í dag kveða upp úrskurð í máli foreldra Rachel Corrie sem beið bana á Gaza-ströndinni árið 2003 þegar hún mótmælti eyðileggingu Ísraela á palestínskum heimilum. Rachel Corrie stóð í veginum fyrir jarðýtu og kramdist til bana þegar ýtan ók yfir hana.

Dauði Rachel Corrie gerði hana að eins konar tákni meðal palestínskra aðgerðasinna um hörku Ísraela gagnvart friðsælum mótmælum fyrir botni Miðjarðarhafs.

Stjórnvöld í Ísrael segja að það hafi verið á ábyrgð Rachel Corrie sjálfrar að hafa staðið í vegi fyrir jarðýtunni. Hún hafi sett sjálfa sig í mikla hættu með ólöglegum aðgerðum. Þúsundir annarra mótmælenda hafi sett sig í svipuð spor með vanhugsuðum aðgerðum.

Foreldrar Rachel krefjast aðeins eins Bandaríkjadals í skaðabætur frá Ísrael en fara þó fram á að sá kostnaður sem lögsókn þeirra hefur fylgt verði greiddur. Hjónin hafa eytt yfir 200 þúsund dölum í að fljúga með vitni til Ísrael, vera sjálf viðstödd réttarhöld og í þýðingu rúmlega þúsund blaðsíðna af prentuðum dómsskjölum.

Corrie-hjónin segja mál sitt ekki gefa rétta mynd af því hversu erfitt sé að reka mál fyrir dómstólum í Ísrael. Dómar yfir hermönnum séu mjög sjaldgæfir.- bþh



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×