Erlent

Ísak herjar á Bandaríkin

Hitabeltisstormurinn Ísak var síðdegis í gær orðinn að fellibyl og stefndi að norðurströnd Mexíkóflóa, þar sem hann ógnaði íbúum í Louisiana og þremur öðrum ríkjum.

Veðurhamurinn hafði þá þegar kostað tugi manna lífið á Haítí og í Dóminíkanska lýðveldinu, ásamt því að gera mikinn usla á Kúbu þegar hann mjakaði sér yfir Karíbahafið.

Nákvæmlega sjö ár eru liðin í dag frá því fellibylurinn Katrína skall á Louisiana og lagði meðal annars heilu hverfin í New Orleans í rúst. Katrína kostaði hátt í tvö þúsund manns lífið og varð þar með einn af fimm mannskæðustu fellibyljum í sögu Bandaríkjanna.

Ekki var búist við að Ísak ylli nærri jafn miklu tjóni og Katarína, enda engan veginn jafn öflugur. Vindstyrkurinn í Katrínu náði allt að 78 metrum á sekúndu, en Ísak var í gær farinn að nálgast um eða yfir 40 metra á sekúndu – vindstyrk sem Íslendingum er ekki ókunnugur.

Það var einkum flóðahættan sem olli Bandaríkjamönnum áhyggjum, enda fylgdi veðrinu úrhellisrigning. Víða var unnið hörðum höndum að því að styrkja flóðvarnargarða, auk þess sem íbúum var ráðlagt að yfirgefa mestu hættusvæðin og leita skjóls í þar til ætluðum neyðarskýlum.

„Nú er ekki tími til að storka örlögunum," sagði Barack Obama Bandaríkjaforseti í sjónvarpsávarpi í gær, þar sem hann hvatti íbúa til að fara að ráðleggingum stjórnvalda: „Þið verðið að taka þetta alvarlega."

George W. Bush, forveri Obama í embætti, var sakaður um að hafa ekki staðið sig nógu vel árið 2005 þegar Katrína hamaðist á New Orleans. Björgunarstarf virtist illa skipulagt og uppbygging gekk hægt fyrir sig.

Félagar Bush í Repúblikanaflokknum fengu hins vegar að kenna á Ísak strax í gær, þar sem þeir sátu á landsþingi flokksins í borginni Tampa á vestanverðum Flórídaskaga.

Stytta þurfti landsþingið um einn dag, úr fjórum í þrjá, og svo virtist fréttaflutningur af fellibylnum ætla að kaffæra að stórum hluta fréttir af þinginu, sem er einn stærsti viðburðurinn í aðdraganda forsetakosninganna í nóvember, þar sem flokksfélagar hafa meðal annars formlega samþykkt að Mitt Romney verði forsetaefni þeirra gegn Obama.

Úrkoman mikla, sem fylgir Ísak, er bændum og öðrum ræktendum í suðurríkjum Bandaríkjanna hins vegar fagnaðarefni, enda hafa miklir þurrkar eyðilagt uppskeru víða þar í sumar. Hugsanlega kemur þessi úrkoma samt of seint og sumir óttast að hún verði það mikil, að hún geri hreinlega illt verra.

gudsteinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×