Innlent

Samstarf á sviði náttúruvísinda

safnkostur Engin sýning náttúrugripa hefur staðið uppi um margra ára skeið.
fréttablaðið/gva
safnkostur Engin sýning náttúrugripa hefur staðið uppi um margra ára skeið. fréttablaðið/gva
Forsvarsmenn Náttúrufræðistofnunar Íslands (NÍ) og Náttúruminjasafns Íslands (NMÍ) undirrituðu samkomulag um víðtækt samstarf á mánudag. Í því felst að NÍ muni veita NMÍ greiðan aðgang að safnkosti sínum vegna sýninga og annarrar starfsemi og að samvinna verði um söfnun, skráningu, rannsóknir og fræðslu.

Samkvæmt samkomulaginu mun NÍ afhenda NMÍ til lengri tíma muni sem verða hluti af grunnsýningu þess. Auk þess munu starfsmenn safnsins fá tímabundna starfsaðstöðu hjá Náttúrufræðistofnun á meðan starfsemi safnsins er í mótun.

Eins og komið hefur fram í fréttum er NMÍ húsnæðislaust frá og með áramótum, en á sama tíma hefur samstarfsnefnd á vegum ríkis og borgar skilað skýrslu um möguleika á að setja upp sýningu í Perlunni. Fjárhagslegur grundvöllur slíkrar sýningar verður skoðaður í framhaldinu, eins og kom fram í ræðu mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi nýlega.

Jón Gunnar Ottósson, forstjóri NÍ, og Margrét Hallgrímsdóttir, settur forstöðumaður NMÍ, undirrituðu samkomulagið. Í tilkynningu segir að með því hafi verið tekið mikilvægt skref í því að efla samvinnu þessara náttúruvísindastofnana. - shá




Fleiri fréttir

Sjá meira


×