Erlent

Malala hyggst snúa aftur til Pakistan

Malala yousufzai Malala dvelur nú á Queen Elizabeth-spítalanum í Birmingham á deild sem sérhæfir sig í meðferð alvarlegra skotsára.Fréttablaðið/AP
Malala yousufzai Malala dvelur nú á Queen Elizabeth-spítalanum í Birmingham á deild sem sérhæfir sig í meðferð alvarlegra skotsára.Fréttablaðið/AP
Faðir hinnar 15 ára gömlu Malölu Yousufzai, sem varð fyrir skotárás í heimabæ sínum þann 9. október, segir dóttur sína hafa heitið því að snúa aftur til Pakistan þegar hún hefur náð sér af sárum sínum.

Malala hefur árum saman barist fyrir skólagöngu stúlkna og opinberlega gagnrýnt talibana sem fóru um skeið með völdin í Swat-dalnum í Pakistan þar sem hún býr. Hóf hún ellefu ára gömul að skrifa blogg undir dulnefni þar sem hún lýsti lífi undir stjórn talibana í Swat-dalnum.

Malala var skotin í höfuðið af vígamanni sem tilheyrir hreyfingu talibana þann 9. október að því er virðist vegna baráttu sinnar.

Malala var í kjölfarið flutt á sjúkrahús í Bretlandi þar sem hún er á hægum batavegi. Talibanar hafa hótað því að drepa hana snúi hún aftur til Pakistan en þrátt fyrir hótanirnar segir faðir hennar hana staðráðna í að fara heim.

Almenningur, sem og stjórnvöld í Pakistan, hefur harðlega fordæmt skotárásina á Malölu.

- mþl




Fleiri fréttir

Sjá meira


×