Innlent

Páll horfinn af sjónvarpsskjánum í bili

Páll Magnússon Útvarpsstjórinn vill hafa óbundnar hendur á meðan málefni RÚV eru til umræðu á Alþingi.
Páll Magnússon Útvarpsstjórinn vill hafa óbundnar hendur á meðan málefni RÚV eru til umræðu á Alþingi.
„Ég tók mér bara ótímabundið leyfi frá þessu eins og ég hef oft gert áður," segir Páll Magnússon útvarpsstjóri, sem nú í október hefur ekki lesið fréttir í Sjónvarpinu eins og hann er vanur.

Páll segist meðal annars hafa tekið hlé frá fréttalestrinum í vor þegar frumvarp um ríkisútvarpið lá fyrir Alþingi. Frumvarpið verður rætt á Alþingi fyrir áramót. „Þegar RÚV er sjálft mikið í umræðunni er betra að vera laus frá því að lesa fréttir. Þá getur maður frekar tjáð sig á opinberum vettvangi," segir Páll, sem þvertekur fyrir að ákvörðun hans um að hætta fréttalestrinum sé endanleg.

„Það er engin dramatísk ákvörðun sem liggur þarna að baki. Ég hef ekki lesið minn síðasta fréttatíma á ævinni."

Fréttalestur útvarpsstjórans hefur verið gagnrýndur, meðal annars af stjórnarmönnum í RÚV. Stjórnin hefur þó enga samþykkt gert um málið. Páll neitar því að þrýstingur frá stjórninni hafi ráðið ákvörðun hans.

„Menn hafa allar götur frá því ég tók þarna við haft uppi ýmsar skoðanir á þessu, bæði í stjórninni og annars staðar. En þetta er bara ákvörðun sem ég tek og hún gildir ótímabundið þangað til ég tek einhverja aðra ákvörðun," svarar útvarpsstjóri.

„No comment," sagði Björg Eva Erlendsdóttir, formaður stjórnar RÚV, spurð hvort stjórnin hefði beitt sér fyrir því að útvarpsstjórinn hætti fréttalestrinum. - gar




Fleiri fréttir

Sjá meira


×