Sport

Telma fékk brons í Malmö

Karatekonan Telma Rut Frímannsdóttir nældi sér í bronsverðlaun í gær á Swedish Karate Open sem fram fer í Malmö. Telma Rut keppir í mínus 61 kg flokki. Í fyrstu viðureign tapaði Telma fyrir Stephanie Kaup frá svíþjóð sem endaði með því að vinna flokkinn og því fékk Telma uppreisnaglímu og tækifæri til að keppa um 3ja sætið.

Í fyrri uppreisnarviðureigninni mætti Telma henni Michelle Jenson frá Danmörku í mjög jafnri viðureign sem endaði 4-4 og var Telmu dæmdur sigur með dómaraúrskurði.

Í baráttunni um 3ja sætið mætti Telma Lydia Holler frá Þýskalandi. Telma lenti fljótt undir í viðureigninni og var staðan orðin 0-6 eftir um 1 mínútu, en bardaginn er 3 mínútur, og leit þetta ekki vel út um stundarsakir. En þá tók Telma sig til og saxaði jafnt og þétt á forskot Lydiu og á endanum vann Telma frábæran sigur 12-7, þar sem hún skoraði 11 stig áður en Lydia gat bætt 1 stigi við.

Þetta var ein allra besta viðureignin sem sást í dag og ótrúlegur viðsnúningur sem Telma sýndi um miðjan bardagann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×