Innlent

Fundaði með danska forsætisráðherranum

Haukur Viðar Alfreðsson skrifar
Mynd/Anna Marín Schram
Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, átti í dag fund með Helle Thorning-Schmidt, formanni danskra jafnaðarmanna og forsætisráðherra í forsætisráðherraskrifstofunni á Kristjánsborg.

Í fréttatilkynningu segir að forsætisráðherrann hafi farið fögrum orðum um árangur Samfylkingarinnar í glímunni við hrunið undanfarin ár og kvaðst oft hafa tekið stjórnarþátttöku Samfylkingarinnar frá hruni sem dæmi um hvernig jafnaðarmenn öxluðu byrðar af erfiðum verkefnum á örlagatímum, þótt vafasamt væri að það væri til vinsælda fallið.

Árni var staddur í flugvél á leið í loftið þegar Vísir náði tali af honum.

„Þetta var mjög góður fundur. Við höfum verið vinir í meira en tuttugu ár og það er ekkert nema gott á milli okkar. Á fundinum fórum við yfir það hversu mikilvægt það er að leggja áherslur á sköpun starfa sem forsendu fyrir velferð."

Forsætisráðherrann gerði grein fyrir nýjum tillögum dönsku ríkisstjórnarinnar um lækkun skatta og álaga á fyrirtæki í þeim tilgangi. Árni Páll greindi frá hliðstæðum hugmyndum Samfylkingarinnar um lækkun tryggingagjalds í sama tilgangi og nýjar leiðir til að tryggja litlum og meðalstórum fyrirtækjum tryggari aðgang að ódýru lánsfé og fjárfestingarfé.

„Sköpun starfa er algjört lykilatriði til að komast út úr þessari efnahagslegu stöðnun sem einkennir Evrópu núna, eða hinn vestræna heim skulum við segja."

Mynd/Anna Marín Schram



Fleiri fréttir

Sjá meira


×