Innlent

Um 25 þúsund búnir að kjósa

Fleiri kjósa utan kjörfundar en áður og kjörstjóri telur frídag í gær spila þar inn í. Einnig sé fólk meira á faraldsfæti en oft áður. Nær  25 þúsund manns höfðu kosið utan kjörfundar í gærkvöldi.

Utankjörfundaratkvæðagreiðsla í Reykjavík fer fram í Laugardalshöllinni og í gærkvöldi höfðu 13.201 kosið þar. Sambærileg tala frá Alþingiskosningunum árið 2009 var 8600, svo ljóst er að töluvert fleiri kjósa utan kjörfundar nú.

Bergþóra Sigmundsdóttir, kjörstjóri utankjörfundaratkvæðagreiðslu í Reykjavík, segir þróunina í þá átt að fleiri kjósi utan kjörfundar og við spurðum hana um skýringar á því.

„Já, kannski fólk sé meira á faraldsfæti. Það var auðvitað frídagur í gær og það hefur eflaust eitthvað að segja."

Í gærkvöldi höfðu alls borist 24.856 atkvæði og eru þar taldir allir sýslumenn á landinu auk sendiráða erlendis.

„Aðsend atkvæði eru 3708 þannig að samtalan er 28.124 en eins og ég hef oft sagt geta þau að hluta til verið fyrsta skipti og að hluta til verið talin aftur."

Bergþóra á þar við að sum atkvæðin hafi borist frá sendiráði til einhvers af sýslumönnunu og geti því hafa verið tvítalin. Hún segir atkvæðagreiðsluna hafa gengið vel og verið jafna alla vikuna.

„Við verðum með opið milli 10 og 17 á morgun fyrir þá sem ekki búa á höfuðborgarsvæðinu, það er að segja þá sem ekki eru í suðvesturkjördæmi og ekki Reykjavík suður eða norður, því þeir fara náttúrulega í sína kjördeild á morgun á kjördegi. En aðrir geta komið og við komum þeim atkvæðum á leiðarenda,“ segir Bergþóra.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×