Innlent

Nú er hægt að fá sálfræðimeðferð í gegnum tölvur

Hrund Þórsdóttir skrifar
Fjóla Dögg Helgadóttir, doktor í sálfræði, hefur búið til forrit sem veitir hugræna atferlismeðferð.
Fjóla Dögg Helgadóttir, doktor í sálfræði, hefur búið til forrit sem veitir hugræna atferlismeðferð.
Sálfræðingurinn Fjóla Dögg Helgadóttir starfar við Oxfordháskóla og hóf vinnu við forrit sem gæti beitt hugrænni atferlismeðferð, í gegnum doktorsnám sitt fyrir átta árum. Í forritinu, sem nú er tilbúið, er byggt á rannsóknaþekkingu undanfarinna áratuga og er forritið þeim eiginleika gætt að geta sniðið meðferðina að hverjum einstaklingi út frá stöðluðum spurningalistum. „Það sem forritið í raun gerir er að spyrja fólk um hegðun og hugsanir þess í daglegu lífi og út frá þeim fer forritið í gegnum þær æfingar sem sálfræðingur myndi gera í venjulegri meðferð,“ segir Fjóla.

Yfirleitt þarf fólk að fá greiningu á kvillum sínum til að fá hjálp, en forritið gerir það óþarft og getur til dæmis nýst þeim sem vilja auka sjálfsöryggi sitt. Forritið vinnur með notendum í sex mánuði. „Þú vinnur alls konar æfingar og fólk kemur yfirleitt svona 15 sinnum inn í forritið og fær hjálp án þess að þurfa að fara eitthvert og segja: „Ég er með félagsfælni og þess vegna þarf ég að fá meðferð“. Það er nýjungin í þessu.“

Forritið hefur einnig reynst vel við þunglyndi og í þróun er að vinna með sálfræðilegu hliðina á ófrjósemi. „Fólk sem er með félagsfælni vill ekki tala við annað fólk og fólk sem er ófrjótt vill ekki tala um það heldur. Þess vegna er netið besta leiðin til að ná til þessa fólks heima í stofu.“

Á netsíðunni ai-therapy.com má finna allar upplýsingar og þar getur fólk skráð sig til þátttöku í ófrjósemisrannsókninni áður en það forrit fer á markað. Fjóla segir meðferðina kosta á við einn tíma hjá sálfræðingi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×