Innlent

"Finnið hana“

Hödd Vilhjálmsdóttir skrifar
Dönsk kona sem týndi kettinum sínum á Reykjavíkurflugvelli biðlar til Íslendinga um að finna köttinn og heitir fundarlaunum fyrir.

Leit að hinni dönsku Nuk hefur staðið yfir síðan klukkan sjö í morgun en læðan slapp út úr einkaflugvél á Reykjavíkurflugvelli. Eigandi kattarins heitir eitt hundrað þúsund krónum í fundarlaun.

Hátt í tíu manns hafa leitað að kettinum frá því í morgun, þar á meðal félagar úr Flugbjörgunarsveit Reykjavíkur og eigandinn sjálf. Þess má geta að eigandinn ber allan kostnað vegna leitarinnar.

Susanne Alsing, eigandi Nuk, segir að í gærkvöldi hafi þau lent hér á Reykjavíkurflugvelli og að kötturinn hafi orðið eftir í flugvél þeirra í nótt. Þegar Susanne kom um borð í morgun var Nuk horfin en kötturinn slapp út um smá rifu á hurð flugvélarinnar. „Svo virðist sem Nuk hafi tekist að virkja stigann og þannig opnað hurðina og svo hlaupið í burtu,“ segir hún.

Nuk er svört með hvítan blett á hálsinum og síðast þegar Susanne sá hana var hún með bleika ól. Henni finnst leitin ekki vera mikll viðbúnaður þar sem að hún elskar köttinn sinn og biður Íslendinga um að hafa augun hjá sér. „Finnið Nuk, fangið hana og hringið strax í mig. Ég kem um leið, hvort sem það er um dag eða nótt,“ segir Susanne.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×