Innlent

Skemmtilegt að taka virkan þátt í baráttunni

Freyr Bjarnason skrifar
Fréttakonan hefur haft í nógu að snúast undanfarnar vikur.
Fréttakonan hefur haft í nógu að snúast undanfarnar vikur.
„Þetta leggst ljómandi vel í mig,“ segir fréttakonan Lóa Pind Aldísardóttir um Kosningapartí Stöðvar 2 í kvöld.

Kosningapartí verður í opinni dagskrá á Stöð 2 og hér á Vísi. Það hefst klukkan 21 og stendur til miðnættis.

„Ég held að þetta verði öðruvísi kosningasjónvarp. Við erum ekki að fara að keppa við Rúv,“ segir hún. „Kosningadagur er hátíðisdagur hjá þjóðinni og kosningakvöldin eru alltaf stuð og stemning. Við ætlum að reyna að endurspegla það í þessum þætti. Þegar fólk er búið að fá sinn skammt af tölum frá Rúv getur það farið yfir til okkar og fengið smá sprell, enda er uppleggið „kosningapartí“.“

Aðspurð segir Lóa Pind undanfarnar vikur í kosningasjónvarpinu á Stöð 2 hafa verið gríðarlega skemmtilegar en einnig mjög erfiðar. „Þetta er gríðarlegt álag en það er mjög skemmtilegt að fá að taka virkan þátt í þessari baráttu.“

Fréttakonan knáa segist ekki vera búin að ákveða hvað hún ætlar að kjósa. „Ég ákvað að ákveða mig ekki fyrr en í kjörklefanum. Mér fannst ég ekki geta tekið ákvörðun á meðan ég er að taka þátt í þessu öllu saman.“

Hægt verður að fylgjast með Kosningapartíinu í beinni hér á Vísi, og við verðum á vaktinni þar til úrslit liggja fyrir, og lengur ef þarf.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×