Fastir pennar

Framsókn, loforðin og ábyrgðin

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Talsverðri gagnrýni sætti að skýrsla rannsóknarnefndar Alþingis um Íbúðalánasjóð skyldi ekki koma út fyrir kosningar. Það var eðlileg gagnrýni; gera mátti ráð fyrir að nefndin fjallaði meðal annars um pólitíska ábyrgð á þeim mistökum sem leiddu til afleitrar stöðu sjóðsins. Það eru upplýsingar sem kjósendur hefðu átt að hafa í höndum þegar þeir tóku afstöðu til flokka í kosningunum.

Nú liggur niðurstaðan fyrir og er býsna skýr. Kosningaloforð Framsóknarflokksins vorið 2003 um að lána fyrir 90% af andvirði íbúðar var glapræði og upphafið að vegferð sem „endaði illa og varð þjóðinni dýrkeypt“ eins og nefndin orðar það.

Hún undanskilur ekki hinn stjórnarflokkinn ábyrgð: „Ríkisstjórn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks var samábyrg fyrir breytingunum 2004 en um þær var samt sem áður pólitískur ágreiningur milli flokkanna og jafnvel innan þeirra. Það veikti þá umgjörð og festu sem hefði þurft að vera til staðar við innleiðinguna.“

Kjósendum hefði sennilega líka þótt áhugavert að lesa greiningu rannsóknarnefndarinnar á afleiðingum loforðsins um 90% lán. ÍLS slakaði á lánaskilyrðum og gerði minni kröfur í greiðslumati á sama tíma og veðhlutfall var hækkað í 90%. Útlánavöxturinn náði hámarki 2005 en þá var húsnæðisverð orðið hátt í sögulegu samhengi og ekki líklegt að það héldist þannig lengi. „Því var stór hluti af lánum sjóðsins veittur þegar húsnæðisverð var hátt og veðhlutfall hærra en áður eða 90%.

Húsnæðisverð hækkaði enn næstu misserin og því voru meiri líkur á að útlán sem voru veitt á árunum 2004–2007 lentu í vanskilum en önnur. Þegar fasteignaverð tók að lækka í byrjun árs 2008 og höfuðstóll útlána hækkaði vegna aukinnar verðbólgu dugði veð í mörgum tilvikum ekki fyrir láninu á sama tíma og margir lántakendur réðu ekki við þyngri greiðslubyrði,“ segir nefndin.

Með öðrum orðum: Hið óábyrga kosningaloforð Framsóknarflokksins árið 2003 stuðlaði að því að búa til hluta af skuldavandanum, sem flokkurinn lofaði tíu árum síðar að leysa með öðru óábyrgu kosningaloforði. Að ekki sé talað um milljarðatugina sem hafa fallið og eiga eftir að falla á skattgreiðendur vegna rangra ákvarðana um Íbúðalánasjóð á sínum tíma.

Kjósendum hefði líka getað þótt forvitnilegt að vita að þáverandi – og núverandi – stjórnarflokkar skelltu skollaeyrum við aðvörunum og tillögum alþjóðastofnana eins og AGS og OECD. Þannig að þótt forsætisráðherrann leyfi sér að gera lítið úr varnaðarorðum þeirra vegna áforma um stórfellda skuldaniðurfellingu og skáki í því skjóli að þær hafi haft rangt fyrir sér í Icesave-málinu en hann rétt, sýnir þessi saga að það er ekki alltaf jafnsmart að hunza ráðleggingar sérfræðinga alþjóðastofnana.

Kosningarnar eru búnar og kannski hefði það engu breytt um úrslit þeirra þótt kjósendur hefðu haft skýrsluna um Íbúðalánasjóð í höndum. Hún ætti þó alltént að geta sýnt flokkunum sem fóru illa að ráði sínu árið 2004 að það getur borgað sig að fara varlega þegar á að hrinda stórfenglegum kosningaloforðum í framkvæmd, vanda útfærsluna og hlusta á varnaðarorðin.






×