Fastir pennar

Ekki hugsa bara um annað

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Fréttablaðið sagði frá því í fyrradag að barnaverndaryfirvöld í Reykjavík gagnrýndu sjúkrahúsið og meðferðarstofnunina Vog fyrir að senda þeim sárafáar tilkynningar um hugsanlega vanrækslu eða ofbeldi gagnvart börnum. Halldóra Gunnarsdóttir, framkvæmdastjóri Barnaverndar Reykjavíkur, sagði að tilkynningar frá Vogi væru „teljandi á fingrum annarrar handar“.

Halldóra benti sömuleiðis á þann mun sem væri á fjölda tilkynninga frá Vogi og sambærilegum stofnunum Landspítalans og slysadeild. „Þar er tilkynnt um minnsta grun um vanrækslu vegna neyslu foreldris. Jafnvel þótt viðkomandi sé að koma þangað í fyrsta skipti. Þetta er mjög greinilega spurning um áherslur,“ sagði Halldóra.

Svör Þórarins Tyrfingssonar, yfirlæknis á Vogi, hér í blaðinu voru býsna afdráttarlaus. Hann segir starfsfólk Vogs ekki hafa forsendur til að tilkynna grun um vanrækslu barna. „Við erum ekki að horfa á hegðun fólks heima við og við getum ekki gefið okkur það að fólk með fíkn vanræki börnin sín,“ segir hann.

Þórarinn segir starfsfólk Vogs ekki tilkynna allt sem það heyri, enda sé það ekki í aðstöðu til þess. „Við erum hreinlega að hugsa um annað. Það eru aðrir sem tilkynna um það ef börn eru vanrækt og við höfum ekkert með börn að gera. Við erum að fást við fíkn, ekki ofbeldismál.“

Þetta er að sumu leyti skiljanlegt viðhorf, ekki sízt út frá því að starfsfólk Vogs er vafalítið undir miklu álagi eins og flest annað heilbrigðisstarfsfólk og í mörg horn að líta. Um leið er þetta viðhorf hins vegar stórhættulegt.

Í barnaverndarlögum er kveðið á um skyldu þeirra sem stöðu sinnar og starfa vegna hafa afskipti af málefnum barna til að tilkynna til barnaverndarnefnda grun um að börn búi við óviðunandi uppeldisskilyrði, verði fyrir áreitni eða ofbeldi eða stofni sjálf heilsu sinni og þroska í hættu.

Ýmsar starfsstéttir eru sérstaklega taldar upp í þessari lagagrein: Leikskólastjórar, leikskólakennarar, dagmæður, skólastjórar, kennarar, prestar, læknar, tannlæknar, ljósmæður, hjúkrunarfræðingar, sálfræðingar, félagsráðgjafar, þroskaþjálfar, náms- og starfsráðgjafar og þeir sem hafa með höndum félagslega þjónustu eða ráðgjöf. Sömuleiðis er tekið skýrlega fram að tilkynningaskyldan gangi framar ákvæðum laga eða siðareglna um þagnarskyldu viðkomandi starfsstétta.

Sumt af þessu fólki gæti auðvitað sagt sem svo að það sé að hugsa um annað en barnavernd. Prestarnir gætu til dæmis sagt að þeir væru að fást við andlegu málin, en ekki ofbeldismálin. Og að þeir væru of uppteknir af þeim til að rækja þá skyldu að tilkynna um grun um að barn væri vanrækt eða beitt ofbeldi. En það væri ekki forsvaranleg afstaða.

Svo er það nú einfaldlega svo að áfengis- og fíkniefnaneyzla kemur við sögu í alls konar málum sem varða vanrækslu og ofbeldi gegn börnum og málum þar sem börn fara sér sjálf að voða. Það vita allir.

Stjórnendur á Vogi eiga þess vegna að láta það boð út ganga að starfsmenn þar eigi að sinna þeirri skyldu sem þeim ber til að tilkynna hugsanlega vanrækslu eða ofbeldi gegn börnum. Og allir aðrir sem bera sérstakar skyldur í þessu efni þurfa að muna að þeir eiga aldrei bara að „hugsa um annað“.

Það viðhorf getur orðið til þess að gert sé á hlut barns, sem annars hefði verið hægt að bjarga.






×