Fastir pennar

Týnt tækifæri

Ólafur Þ. Stephensen skrifar
Opið hagkerfi, greið milliríkjaviðskipti og alþjóðleg bandalög hafa verið lykillinn að velgengni margra ríkja, ekki sízt þeirra smærri. Víða í ríkjunum sem við berum okkur saman við ríkir nokkuð breið samstaða um utanríkis- og utanríkisviðskiptapólitíkina og það er ein forsenda stöðugleika í efnahagslífinu.

Ein ástæðan fyrir því að vinstristjórnin sem hrökklaðist frá völdum síðastliðið vor náði ekki þeim árangri sem hún ætlaði sér var að hún var innbyrðis ósammála um stöðu Íslands á alþjóðavettvangi og stefnuna gagnvart umheiminum.

Aðildarviðræðurnar við Evrópusambandið lentu í ógöngum vegna innbyrðis deilna í stjórninni og fyrir vikið áform um afnám gjaldeyrishafta. Deilur á stjórnarheimilinu stóðu sömuleiðis í vegi fyrir því að mótuð væri skýr stefna um eflingu erlendra fjárfestinga. Og þótt eini flokkurinn, sem hefur á stefnuskrá sinni róttæka uppstokkun á landbúnaðarkerfinu með ofurtollum sínum og viðskiptahindrunum, færi með stjórnarforystuna breyttist ekkert í þeim efnum.

Ein ástæðan fyrir því að ríkisstjórn Sjálfstæðisflokksins og Framsóknarflokksins sem tók við völdum eftir kosningar hefur valdið mörgum í viðskiptalífinu vonbrigðum er að stefna hennar er að mörgu leyti sama marki brennd – og kannski var ekki við öðru að búast. Þessir flokkar hafa iðulega dregið fram þjóðernisíhaldið og tortryggnina gagnvart útlöndum hvor í öðrum.

Þannig stöðvaði stjórnin aðildarviðræðurnar við ESB. Þar með ýtti hún til hliðar eina raunhæfa planinu sem hefur komið fram um upptöku nýs gjaldmiðils og afnám gjaldeyrishaftanna. Ekkert hefur komið í staðinn. Gjaldeyrishöftin eru orðin mörgum fyrirtækjum fjötur um fót og leiða til þess að sum hátækni- og sprotafyrirtæki flytja höfuðstöðvar sínar og ýmsa starfsemi frá Íslandi. Við erum áfram með hvað mestar hindranir í vegi erlendra fjárfestinga af öllum vestrænum ríkjum. Í landbúnaðarpólitíkinni breytist ekki neitt.

Ef eitthvað er bætir nýja ríkisstjórnin um betur í eintrjáningshættinum með sínum „þjóðmenningarlegu“ áherzlum. Í huga forsætisráðherrans kemur hin séríslenzka „róttæka rökhyggja“ Framsóknarflokksins í stað ráðgjafar frá hinum og þessum skammstöfunum í hópi alþjóðastofnana. Framsóknarmenn eru klárari en sérfræðingar AGS og OECD.

Það er gott að hafa trú á sjálfum sér. Og margt hefur nýja ríkisstjórnin gert vel til að efla atvinnulífið og þar með byggja undir framtíðarlífskjör Íslendinga, til að mynda að byrja að létta af atvinnurekstri álögum og einfalda skatta- og lagaumhverfi hans. Það breytir ekki því að íslenzkt atvinnulíf þarf traustari alþjóðlega umgjörð, þar með talinn stöðugan, alþjóðlegan gjaldmiðil. Tækifærinu til að byggja upp slíkt umhverfi hefur nýja ríkisstjórnin vísvitandi týnt – og ekkert bendir til að hún hyggist leita að því á nýja árinu.






×