Hamar hefur nú bæst í hóp þeirra liða í Dominso-deild kvenna í körfubolta sem hefur skipt um erlendan leikmann en karfan.is segir frá því að Hvergerðingar hafa sent Di´Amber Johnson heim og í stað hennar mun hin bandaríska Chelsie Schweers klára tímabilið með Hamarsliðinu.
„Við teljum að við þurfum leikmann sem er meiri leiðtogi og eigum þannig meiri möguleika á að ná okkar markmiðum,“ sagði Hallgrímur Brynjólfsson, þjálfari Hamars, í viðtali við karfan.is
Di´Amber Johnson var með 22,9 stig og 5,4 stoðsendingar að meðaltali í leik með Hamarsliðinu en hún er þriðji stigahæsti leikmaður deildarinnar og í fjórða sæti yfir flestar stoðsendingar.
Hamarsliðið er í 6. sæti deildarinnar, fjórum stigum á eftir Val sem situr í fjórða og síðasta sætinu inn í úrslitakeppnina.
Chelsie Schweers kemur úr Christopher Newport háskólanum sem spilar í 3. deild NCAA háskólakörfunnar en hún var auk þess með 13,0 stig að meðaltali með gríska liðinu Panathinaikos tímabilið 2011 til 2012. Schweers lék síðast með Toowoomba Mountanieers í Ástralíu á síðasta tímabili.
Körfubolti